132. löggjafarþing — 108. fundur,  25. apr. 2006.

Frumvörp um Ríkisútvarpið og fjölmiðla.

[13:42]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það er rétt að taka undir það sem fram hefur komið áður að það er miður að meiri hluti menntamálanefndar hafi hafnað því sáttatilboði sem fram var lagt. Hins vegar er rétt að hæla hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir það að öðru leyti hvernig hann hagar störfum nefndarinnar nú við endurupptöku málsins og kom strax í ljós í morgun að full ástæða var til. Nú þegar hefur t.d. komið fram að mikill misskilningur var á ferðinni varðandi réttindi starfsmanna. Meiri hlutinn hefur haldið því fram að ekki væri verið að skerða réttindin. Það var upplýst mjög greinilega á fundi í morgun að um slíkt er að ræða og ég vona að meiri hlutinn taki það til skoðunar.

En í hádeginu, þegar framhaldsnefndarfundur var haldinn, fengum við loks að sjá fjölmiðlafrumvarpið og þá kemur í ljós að væntanlega síðdegis í gær hefur verið bætt inn í það setningu sem er augljóslega tengd því frumvarpi sem við höfum hér verið að ræða, og augljóslega verið að reyna að bæta fyrir það sem menn hafa ekki viljað að væri í frumvarpinu en er í því. Þannig að það er nú þegar komið fram nýtt atriði, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, varðandi málefni Ríkisútvarpsins. Á fundum nefndarinnar hafa nefnilega bæði höfundar frumvarpsins og fulltrúar menntamálaráðuneytisins túlkað 4. gr. frumvarpsins um Ríkisútvarpið hf. á þann hátt að ríkisútvarpinu væri heimilt að stofna fyrirtæki með öðrum. En í fjölmiðlalögunum, með þeirri setningu sem þar hefur verið bætt við, er það ákvæði tekið til baka. Það er því augljóslega full ástæða til þess, eins og kom fram á fundi nefndarinnar í hádeginu, af hálfu þeirra lögfræðinga sem þar komu, að fara sameiginlega yfir frumvarpið um Ríkisútvarpið og fjölmiðlalögin. Það væri full ástæða til þess vegna þess að á því væru snertifletir og mikilvægt að búa þannig um hnúta að ekki yrðu málaferli vegna þess að ekki hefði verið vandað til verka.

Frú forseti. Ég endurtek og ítreka enn á ný að full ástæða er til að menn átti sig á því að við þurfum að vanda til verka. Ég segi það enn og aftur að ég vonaðist til að menn hefðu lært eitthvað af því sem áður hefur gerst en því miður virðist skorta yfirfærslu milli mála.