132. löggjafarþing — 108. fundur,  25. apr. 2006.

Frumvörp um Ríkisútvarpið og fjölmiðla.

[13:44]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það verður að segjast eins og er að þau eru ýmis hálmstráin sem hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar grípa til í þessari umræðu. Þegar þetta mál kom í þingið lá fyrir að stjórnarandstaðan setti sig upp á móti því og hefur síðan reynt að finna því ýmislegt til foráttu. Það hefur legið fyrir að stjórnarandstaðan vildi ekki að frumvarpið færi í gegn og nú á þessu stigi málsins kemur stjórnarandstaðan og lætur eins og það sé mikið sáttaboð að bjóða það að ríkisstjórnin dragi málið til baka. Þetta er nú dálítið langsótt verð ég að segja.

Af því að hér í þessari umræðu hefur örlítið verið vikið að fjölmiðlafrumvarpinu, sem hæstv. menntamálaráðherra kynnti í gær, þá er rétt að það komi fram að í því frumvarpi er ekki neitt sem á að hafa áhrif á framgang málsins varðandi Ríkisútvarpið. Það eru engin efnisatriði, sem mér er kunnugt um, í fjölmiðlafrumvarpinu sem hafa valdið sérstökum efniságreiningi milli stjórnmálaflokkanna og það er rétt að það komi fram að þó að frumvarpið væri fyrst kynnt í gær þá hefur það auðvitað verið unnið í víðtæku samráði stjórnmálaflokkanna á hinu háa Alþingi. Það er byggt á skýrslu sem samstaða var um meðal flokka á síðastliðnu vori. Það á því ekki beinlínis vel við að tala um einhverja sérstaka leynd í þessu eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði. Þetta ferli hefur þvert á móti byggst á miklu og víðtæku samráði og miklu meira samráði en venja er til í sambandi við mál sem lögð eru fram á hinu háa Alþingi.

Við höfum vitað frá upphafi að það var ágreiningur milli stjórnar og stjórnarandstöðu út af RÚV. Við höfum hins vegar lagt mikið á okkur til að ná samstöðu um fjölmiðlafrumvarpið. Það er ekkert nýtt sem fram hefur komið núna sem gefur mönnum tilefni til að krefjast einhverrar sérstakrar breytingar á málsmeðferð varðandi RÚV í tengslum við þetta fjölmiðlafrumvarp. Ég fæ ekki betur séð en sú breyting sem bættist við í fjölmiðlafrumvarpið í gær sé einmitt til þess fallin að koma til móts við sjónarmið sem komið hafa fram af hálfu stjórnarandstöðunnar.