132. löggjafarþing — 108. fundur,  25. apr. 2006.

Frumvörp um Ríkisútvarpið og fjölmiðla.

[13:47]
Hlusta

Ísólfur Gylfi Pálmason (F):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hér í umræðunni hefur menntamálanefnd setið á fundi í morgun og við höfum fengið mjög margar og fjölbreytilegar upplýsingar. Fyrir það ber að þakka og ég tel að formaður nefndarinnar hafi haldið mjög vel á spilunum.

Við veltum mjög fyrir okkur ýmsum þáttum í þessum frumvörpum tveimur, en við erum í raun og veru bæði að fjalla um frumvarp um útvarp og fjölmiðla, og við veltum fyrir okkur rekstrarformi. Ég minni á það að árið 1991 tók til starfa nýr þjóðleikhússtjóri sem gerði miklar tiltektir í Þjóðleikhúsinu, rak ríkisstarfsmenn sem þar höfðu unnið í langan tíma sem áttu eftir stutt í að fá lífeyri og annað slíkt. Þetta gerði hann í raun og veru með býsna köldu blóði og við erum að velta fyrir okkur hvort eitthvað breytist við að þetta verði hlutafélag. Ég segi: Það fer eftir því hvernig farið er með valdið. Rekstrarformið skiptir kannski ekki höfuðmáli, það fer eftir hvernig farið er með valdið, hvernig er á málum haldið.

Hér er auðvitað um mjög viðkvæm mál að ræða. Við höfum líka verið að ræða um þau menningarverðmæti sem í útvarpinu eru. Það eru gríðarlega mikil menningarverðmæti þar, mikil saga að baki og okkur ber að gæta þeirra menningarverðmæta. Þess vegna þurfum við að fara okkur hægt og örugglega, við þurfum að velta þessum hlutum fyrir okkur eins vel og mögulegt er og alls ekki að ana að neinu. Eins og ég segi, þetta fer eftir því hvernig farið er með valdið, rekstrarformið skiptir ekki öllu máli.