132. löggjafarþing — 108. fundur,  25. apr. 2006.

Frumvörp um Ríkisútvarpið og fjölmiðla.

[13:51]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við í menntamálanefnd erum þessa dagana að fjalla um frumvarp um Ríkisútvarpið hf. Það var samþykkt að taka málið inn aftur milli 2. og 3. umr. og eftir að það lá fyrir sendu hv. þingmenn minni hlutans beiðni til formanns nefndarinnar og þeir lögðu m.a. til átta atriði sem þeir vonuðust til að tekið yrði tillit til.

Á fundi í morgun tilkynnti formaður menntamálanefndar að hann féllist á sjö atriði af þessum átta og rökstuddi þá ákvörðun sína. Mér þykir formaður nefndarinnar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, hafa tekið mjög vel í beiðni stjórnarandstöðunnar og við áttum ágætisfund í morgun. Við skulum líka halda því til haga að við erum ekki formlega að ræða nýtt fjölmiðlafrumvarp í nefndinni. Það hefur ekki fengið afgreiðslu hér í þingsal. En þrátt fyrir það komu gestir í morgun inn á fund þar sem ákveðinn misskilningur var leiðréttur og ég tel að það hafi verið mjög til bóta. En við skulum halda því alveg aðskildu að þetta eru tvö mál og annað málið er statt hjá hv. menntamálanefnd.

Ég held því að upphlaup eins og núna sé óþarft og ég vona að nefndin fái nú frið til þess að vinna málið áfram og á réttum stað, þ.e. í hv. menntamálanefnd. Þingmenn hafa komið hér upp og hrósað formanni nefndarinnar fyrir góð vinnubrögð og ég held að við sem sitjum í nefndinni eigum bara að halda áfram að vinna að málinu þar, því eins og komið hefur fram eru menn að vinna skipulega og vel í menntamálanefnd.