132. löggjafarþing — 108. fundur,  25. apr. 2006.

Nefndadagar.

[14:01]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég get staðfest að hér var haldinn ágætur fundur, samráðsfundur með forseta þingsins þar sem saman voru komnir formenn þingflokkanna. En ég tek undir þau varnaðarorð sem hér hafa verið látin falla og legg áherslu á að það skiptir miklu hvernig til tekst um stjórn þinghaldsins á komandi dögum. Það var og er við hæfi að vara við lagasetningarmistökum eins og hér var gert fyrir stundu.

Nú er farið að hamast, eina ferðina enn, við bútasaum á mjög umdeildum lagafrumvörpum. Menn hafa hrósað hv. formanni menntamálanefndar fyrir að kalla þá fulltrúa fyrir menntamálanefnd sem óskað hefur verið eftir. En ég tók eftir því, hæstv. forseti, að formaður menntamálanefndar sagði að hið umdeilda mál yrði engu að síður rifið út úr menntamálanefnd. Þetta segir hann áður en allir gestir sem eru fengnir (Forseti hringir.) til að varpa ljósi á þingmálið koma fyrir þingnefndina. (Forseti hringir.) Hæstv. forseti. Ég vildi vekja athygli hæstv. forseta á þessum vinnubrögðum og hvetja hæstv. forseta til að beina því til formanns menntamálanefndar að stunda vönduð vinnubrögð.