132. löggjafarþing — 108. fundur,  25. apr. 2006.

Atvinnuleysistryggingar.

742. mál
[14:57]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er ekki að ástæðulausu að stjórnarandstaðan tók því vel að þessi tvö frumvörp yrðu rædd samtímis, þ.e. frumvarp um atvinnuleysistryggingar annars vegar og um vinnumarkaðsaðgerðir hins vegar. Við höfum einmitt lagt áherslu á að þessi frumvörp fylgdust að, eins og reyndar hefur verið allar götur frá því þessi tvíburi kom til sögunnar árið 1997, ef ég man rétt. Þá sat ég reyndar í nefnd sem undirbjó drög að lögum um atvinnuleysistryggingar og um vinnumarkaðsaðgerðir.

Þessi frumvörp eru byggð á samstarfi verkalýðshreyfingar annars vegar og Samtaka atvinnurekenda hins vegar ásamt fulltrúum ríkisvalds. En af hálfu verkalýðshreyfingarinnar hafa komið að vinnunni Alþýðusamband Íslands og BSRB. Sú vinna hefur skilað sér í málamiðlun sem er góðra gjalda verð, eins langt og hún nær. En þegar þessum frumvörpum var skotið til samningsaðila settu þeir fram ákveðin gagnrýnisatriði sem ég vil reifa lítillega.

Þessi frumvörp gera það tvennt í senn að gera bæði lagatextann og framkvæmdina markvissari og skýrari og er það til góðs. En þarna er einnig að finna nýmæli sem skipta miklu máli og sýnist sitt hverjum. Í fyrsta lagi er það tekjutrygging atvinnuleysisbótanna. Er hún til góðs eður ei? Þetta er atriði sem hefur verið talsvert umdeilt í verkalýðshreyfingunni og í samfélaginu almennt.

Ég get sagt frá umræðu sem fram fór um þetta efni á vettvangi stjórnar BSRB þar sem ég þekki vel til. Þar voru uppi tvenn sjónarmið. Annars vegar voru þeir sem bentu réttilega á að tekjuhár einstaklingur eða maður með miðlungstekjur sem færi á atvinnuleysisbætur yrði að vissu leyti fyrir meira höggi en hinn sem væri með lág laun og færi á atvinnuleysisbæturnar. Þá er bent á það að skuldbindingar hins tekjuháa einstaklings eða meðaltekjumannsins séu yfirleitt meiri en lágtekjumannsins og það sé rétt að taka tillit til þessa með einhvers konar aðlögun í það minnsta í atvinnuleysisbótakerfinu.

Hitt sjónarmiðið kom þá ekki síst frá fulltrúum láglaunafólksins sem lagði áherslu á að atvinnuleysisbæturnar yrðu almennt hækkaðar. Það er gert með þessu frumvarpi en afar lítið, um einar 2 þús. kr., þær fara úr 94 þús. kr. í 96 þús. kr. sem ég held að flestir hljóti að vera sammála um að dugar illa til framfærslu á Íslandi. En það sjónarmið varð ofan á í þessari umræðu að styðja tekjutengingu, og þá tímabundna tekjutengingu, inni í kerfinu. Við skulum ekki gleyma því að menn voru að horfa á þessa tvo valkosti, annars vegar að hækka atvinnuleysisbæturnar almennt til allra eða verja hluta fjármagnsins í tekjutenginguna eins og hér varð ofan á. Menn ætla að tekjutengingin á árinu 2007 sé metin á 600–700 millj. kr. Þetta er fyrsta atriðið sem var rætt um, var og er nokkuð umdeilt en þetta sjónarmið varð ofan á. Menn hefðu viljað hafa tímabilið sem tekjutengingin nær til lengra en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Menn hefðu viljað sjá tímabilið hálft ár, ef ég man rétt, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að það séu þrír mánuðir.

Hitt er síðan það sem snýr að stjórnsýslunni. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að ýmsir hefðu gagnrýnt það að úthlutun atvinnuleysisbóta yrði rifin úr tengslum við verkalýðshreyfinguna. Úthlutunarnefndir hafa starfað á hennar vegum eða í nánum tengslum við hennar starfsemi og þar hafa menn réttilega bent á að þetta haldi verkalýðshreyfingunni og starfsmönnum hennar við efnið ef svo má segja. Þeir eru í stöðugum tengslum við þennan vanda sinna félagsmanna sem eru án atvinnu.

Síðan er hitt sjónarmiðið, sem hæstv. ráðherra ýjaði að, að það væri eðlilegt að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar væru aðhaldsaðili, sýndu þessu kerfi aðhald en væru ekki hluti af stjórnsýslunni eða þannig skildi ég orð hans. Mér þykir báðir aðilar hafa nokkuð til síns máls en fyrir mitt leyti styð ég þó þessa breytingu. Við skulum ekki gleyma því að grundvallarbreyting hefur orðið á undanförnum árum hvað varðar alla framkvæmd þessara mála. Samfélagið er orðið rafrænt. Einstaklingurinn fer ekki á staðinn hvort sem það er í banka eða til að sækja atvinnuleysisbætur heldur gerist þetta á rafrænan hátt. Þá er að sjálfsögðu eðlilegt að þessari starfsemi sé fyrir komið á sem hagkvæmastan hátt og ég fyrir mitt leyti hef aldrei gagnrýnt þá ráðstöfun að þetta væri fært inn í Vinnumálastofnun eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi.

Ég var því mjög andvígur á sínum tíma þegar ákveðið var að úthlutun til starfsmanna hins opinbera yrði rifin út úr þessu kerfi eins og gert var. Við gagnrýndum það sem sprettum upp úr þeim geira mjög harðlega á sínum tíma. Við vildum hins vegar sýna ákveðinn stuðning við þau sjónarmið sem komu frá Eflingu, þáverandi Dagsbrún sennilega, Verslunarmannafélaginu og öðrum aðilum hér á Reykjavíkursvæðinu og annars staðar í landinu sem lögðu mikið upp úr því að viðhalda þessum tengslum sem ég vék að áðan.

Annað sem lýtur að stjórnsýslunni er aðkoma að nefndum og ráðum. Það er mjög mikilvægt að sú aðkoma verði ekki þrengd eins og reyndar er verið að gera með þessum lögum. Ég vek athygli á því að hvað Atvinnuleysistryggingasjóð varðar er BSRB, svo ég leyfi mér að halda fram þeim samtökum, ekki tryggð aðkoma að stjórninni. Þeim ágætu samtökum BHM og BSRB er gert að koma sér saman um fulltrúa en ég vil beina því til Alþingis og félagsmálanefndar, sem fær málið til umfjöllunar, hvort rétt væri að fjölga í þessari stjórn.

Mér hefur verið bent á það á móti að ef stjórnir verði mjög fjölmennar vilji það gerast að þær skipi sérstakar fámennari framkvæmdastjórnir sem síðan ráði í reynd öllu og hinir séu þá meira og minna til málamynda. Ég held að það þurfi ekki að gerast. Ég hef verið gagnrýninn á þessa framkvæmdastjórnarskipan í atvinnuleysistryggingakerfinu eins og við höfum búið við og tel að menn eigi að venja sig á að sitja í ívið fjölmennari nefndum. Við erum að tala um geysilega fjárhagshagsmuni og hagsmuni einstaklinga og ég held að kerfinu sé til góðs að hafa breiða aðkomu að þessu stjórnkerfi.

Við 1. umr. gerir maður lítið annað en ympra á ýmsum áherslum og eins og ég segi hér þá styð ég þessar hugmyndir um tekjutengingu, takmarkaða tekjutengingu. Ég tel að hún eigi að vera takmörkuð og í takmarkaðan tíma. Ég tek undir það. Ég hefði viljað hafa tímann ívið lengri og ég hefði viljað að viðmiðunarmörkin væru önnur en nú er. Nú er miðað við miðjan nóvember á síðasta ári en ég tek undir þær spurningar sem komu fram hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur áðan um þá aðila sem væru án atvinnu fyrir þann tíma en verða þá væntanlega af þessari tekjutengingu sem þeir gætu átt rétt á.

Hitt atriðið er breyting á stjórnsýslunni. Ég tek almennt undir hana en gagnrýni þessa þröngu aðkomu að stjórninni og tel að það sé nokkuð sem þurfi að íhuga á nýjan leik.

Varðandi vinnumarkaðsaðgerðirnar og frumvarp til laga um þær þá vil ég einnig taka undir með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Hér skiptir að sjálfsögðu öllu máli hvaða fjármagni er úr að moða til að þessar vinnumarkaðsaðgerðir standi undir nafni, að eitthvað verði úr þeim. Það var minnt á það hér við umræðuna að gert hefði verið ráð fyrir því að sérstök fjárveiting kæmi úr ríkissjóði til þessa verkefnis en í umsögn um frumvarpið frá fjármálaráðuneytinu segir að svo verði ekki. Hér segir, með leyfi forseta:

„Að óbreyttu er áfram gert ráð fyrir að Atvinnuleysistryggingasjóður fjármagni vinnumarkaðsúrræði.“

Auðvitað er þetta nokkuð sem skiptir öllu máli, þ.e. hve mikið fjármagn er sett í þessar aðgerðir.

Eitt sem er rétt að staldra við að sjálfsögðu einnig er tímabil bóta, hversu langt það eigi að vera. Það er verið að stytta það úr fimm árum í þrjú og þarna aftur skiptir þetta samspil vinnumarkaðsaðgerða og atvinnuleysis öllu máli. Hins vegar kemur á móti að rétturinn vaknar að fullu sem hann gerði ekki áður þannig að þar koma til úrræði sem eru til bóta. Allt þetta þarf síðan að vega og meta í samhengi. Við munum gera það í félagsmálanefnd þingsins þegar þar að kemur. Þegar á heildina er litið tel ég að við séum að stíga framfaraspor en við þurfum að gera ýmsar breytingar á frumvarpinu til að vel eigi að vera.

Ég minni á annars ágætt frumvarp um réttindi aðstandenda langveikra barna sem við studdum öll en hefðum gjarnan viljað gera breytingar á. Við erum að vakna upp við það núna, reyndar voru sum sæmilega vakandi þegar það frumvarp var samþykkt hér á þingi, að mikil óánægja er meðal aðstandenda langveikra barna sem ekki falla undir frumvarpið, sem eiga börn sem urðu veik áður en gildistíminn kom til sögunnar. Við eigum ekki að láta svona henda okkur, aldeilis ekki. Eins segi ég um þetta, við eigum að sníða af þá vankanta sem enn eru á þessum lagasmíðum.