132. löggjafarþing — 108. fundur,  25. apr. 2006.

Atvinnuleysistryggingar.

742. mál
[15:13]
Hlusta

Ingvi Hrafn Óskarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er yfirlýst markmið frumvarps til laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja launamönnum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst sitt fyrra starf. Þetta er mikilvægt markmið. Það er brýnt að styðja við einstaklinga í þessum sporum og ég held að almenn og góð samstaða sé um það í samfélaginu.

Eins og hæstv. félagsmálaráðherra kom inn á áðan er gert ráð fyrir tilteknum breytingum á fyrirkomulaginu í 32. gr. frumvarpsins þar sem miðað er við að atvinnuleysisbætur verði tekjutengdar. Að mínum dómi er þarna um að ræða nýjung sem vert er að gefa gaum og sumpart er um að ræða nokkuð varhugaverða stefnubreytingu. Í fyrsta lagi er ljóst að þessar breytingar eru býsna kostnaðarsamar. Það kemur fram í fylgiskjali með frumvarpinu frá fjármálaráðuneyti að árlegur kostnaðarauki verði um 600–700 millj. kr. vegna þessara breytinga og þá er miðað við árið 2007, miðað við 2,6% atvinnuleysi. En það eru ýmsir þættir sem gætu valdið því að kostnaðurinn yrði nokkuð meiri en þarna er áætlað því það eru óvissuþættir inni í þessu eins og t.d. launaþróun og þau áhrif sem þessar breytingar munu hafa.

Það er annað atriði í þessu sem einnig er ástæða til að hnykkja á og það er það sem mætti kalla kerfislæg áhrif þessara breytinga. Það er ljóst að þessi breyting getur beinlínis stuðlað að því að atvinnuleysi muni aukast. Eftir því sem bæturnar eru hærri eða ríflegri þeim mun minni er hvatinn fyrir virka atvinnuleit. Það er auðvitað erfitt að meta áhrifin en það er ljóst að þau verða einhver. Á þetta er einmitt bent í umsögn fjármálaráðuneytisins, með leyfi forseta. Þar segir:

„Í fyrsta lagi felur tillagan í sér mjög miklar hækkanir á atvinnuleysisbótum en þá er hætt við því að hvati til atvinnuleitar gæti minnkað.“

Lög og reglur í þessum málaflokki eiga að stuðla að því að einstaklingar sem í skamman tíma verða atvinnulausir komist á vinnumarkaðinn sem fyrst á nýjan leik. Við eigum hins vegar að forðast reglur sem vinna gegn því markmiði. Staðreyndin er sú að hér á landi er sem betur fer lítið atvinnuleysi og langflestir sem þiggja bætur gera það í skamman tíma. Langtímaatvinnuleysi er sem betur fer lítið.

Þessu er ólíkt farið hjá mörgum nágrannaríkjum okkar í Evrópu sem glíma margar við viðvarandi og verulegt langtímaatvinnuleysi enda hvílir á vinnumarkaðnum þungt reglugerðafargan sem dregur úr skilvirkni og er vinnuletjandi. Það má segja að okkar kerfi hafi frá þessu sjónarmiði reynst vel. Því skyldum við þá leita í smiðju ríkja þar sem ekki hefur tekist eins vel til? Reyndar er það þó svo að þegar öllu er á botninn hvolft þá er það sem skiptir mestu máli að hagstjórn og umhverfi atvinnulífsins sé þannig að atvinnuleysi sé í lágmarki. Það hefur tekist á Íslandi á undanförnum árum. Opið og frjálst hagkerfi er nefnilega besta meðalið við atvinnuleysi. Það mætti þó segja að hér væri einungis stigið stutt skref. Sett er þak á tekjutenginguna. Hún er miðuð við að hámarki 180 þús. kr. og getur aðeins verið til átta mánaða en þetta er hins vegar fyrsta skrefið á varhugaverðri braut. Við heyrðum það áðan í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar að hann var þegar farinn að tala um að lengja þann tíma.

En þetta er mikil stefnubreyting í reynd og ég tel að við séum að fara með þessum breytingum inn á varhugaverða braut. Nú eru bætur ekki miðaðar við brýnustu þarfir. Þeir sem fá lægstu launin fá líka lægri bætur en hátekjumenn sem verða atvinnulausir. Mér kæmi ekki á óvart að mörgum þætti hugmyndinni um velferðarríki hafa verið snúið á hvolf með slíkum reglum.

Virðulegur forseti. Ég vek athygli á þessari stefnubreytingu og treysti því að þessi þáttur frumvarpsins verði tekinn til gagnrýninnar skoðunar og umræðu í nefnd.