132. löggjafarþing — 108. fundur,  25. apr. 2006.

Upplýsingar og samráð í fyrirtækjum.

743. mál
[15:48]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum. Frumvarpi þessu er ætlað að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/14/EB um almennan ramma og upplýsingamiðlun til launamanna og samráð við þá innan Evrópubandalagsins.

Frumvarpið byggist í meginatriðum á efni tilskipunarinnar en markmið þess er að tryggja rétt starfsmanna til upplýsinga og samráðs í fyrirtækjum þar sem starfa að jafnaði 50 starfsmenn. Gert er þó ráð fyrir að frumvarpið taki gildi í áföngum þannig að fram til 1. mars 2008 takmarkist skyldusviðið við fyrirtæki þar sem starfa að jafnaði 100 starfsmenn.

Markmið frumvarpsins er að tryggja rétt starfsmanna til upplýsinga og samráðs í fyrirtækjum og stuðla að því að fulltrúar starfsmanna og fyrirtæki vinni í anda samvinnu við tilhögun og framkvæmd upplýsingagjafar og samráðs að teknu tilliti til hagsmuna beggja aðila. Þar sem ekki er fyrir hendi sama hefð hér á landi um upplýsingagjöf og samráð við starfsmenn og víða í nágrannaríkjum okkar fylgir frumvarpið lágmarksreglum tilskipunarinnar. Meginreglur frumvarpsins fjalla um skyldur fyrirtækja til að veita fulltrúum starfsmanna upplýsingar og hafa við þá samráð varðandi tiltekin málefni. Atvinnurekendum ber þannig að veita starfsmönnum upplýsingar í þremur flokkum tilvika. Í fyrsta lagi varðandi þróun í starfsemi og fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Í öðru lagi lýtur upplýsingaskyldan að atvinnumálum innan fyrirtækisins. Loks eiga fulltrúar starfsmanna rétt á upplýsingum um ákvarðanir sem líklegt er að leiði til verulegra breytinga á skipulagi vinnunnar eða ráðningarsamningum starfsmanna. Fer það nokkuð eftir efni þess máls sem til umfjöllunar er hverju sinni hvenær eðlilegt er að upplýsingarnar séu lagðar fram af hálfu atvinnurekandans. Í þeim tilvikum þar sem skylda til samráðs við fulltrúa starfsmanna er fyrir hendi er þó ávallt skilyrði að atvinnurekandinn hagi upplýsingagjöf sinni þannig að fulltrúar starfsmanna hafi raunverulega möguleika til að setja sig inn í málið og taka þátt í því samráði sem gert er ráð fyrir í framhaldinu. Nauðsynlegt er að samráðið fari fram af hálfu atvinnurekandans á viðeigandi stjórnunarstigi fyrirtækisins þannig að þeir fyrirsvarsmenn fyrirtækisins sem taka þátt í því komi að ákvarðanatöku varðandi það eða þau málefni sem samráðið lýtur að.

Virðulegi forseti. Ég tel rétt að taka það fram að mér hefði þótt æskilegt að tilskipunin hefði verið innleidd með kjarasamningum samtaka aðila vinnumarkaðarins en þeim var á sínum tíma falið það verkefni í hendur en samkvæmt tilskipuninni bar að innleiða efni hennar í landsrétti eigi síðar en 23. mars 2005. Til loka árs 2005 þótti fullreynt að aðilarnir næðu saman um efni samninga til innleiðingar á efni tilskipunarinnar og ljóst var að ekki gæfist svigrúm til að veita þeim frekari tímafrest enda hafði félagsmálaráðuneytinu borist rökstutt álit frá Eftirlitsstofnun EFTA í nóvember sl. Stend ég því hér og mæli fyrir frumvarpi þessu.

Það á þó ekki að koma í veg fyrir að samtök aðila vinnumarkaðarins eða eftir atvikum fulltrúar starfsmanna eða atvinnurekenda þeirra komi sér saman um nánari útfærslu í tillögum og framkvæmd upplýsingagjafar og samráðs innan fyrirtækja.

Virðulegi forseti. Að lokinni umræðunni legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. félagsmálanefndar.