132. löggjafarþing — 108. fundur,  25. apr. 2006.

Upplýsingar og samráð í fyrirtækjum.

743. mál
[15:52]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í frumvarpi til laga um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum er rætt um jákvætt fyrirkomulag en ég velti því fyrir mér varðandi 1. gr. þar sem sagt er, með leyfi forseta:

„Lög þessi gilda um fyrirtæki þar sem starfa að jafnaði a.m.k. 50 starfsmenn á innlendum vinnumarkaði.“

Síðar í frumvarpinu er ákvæði til bráðabirgða um að þessi grein taki í raun ekki gildi fyrr en 1. mars 2008 og þangað til gildi þetta einungis um fyrirtæki sem eru með a.m.k. 100 starfsmenn. Ég velti því fyrir mér hvers vegna þetta taki ekki gildi strax alla leið, kannski sérstaklega hér á landi þar sem stór hluti fyrirtækja er með lægri töluna og því spyr ég hæstv. ráðherra: Hver er ástæðan fyrir þessari frestun á gildistökunni?