132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Aðstoðarmenn og ráðgjafar ráðherra.

517. mál
[12:02]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég legg fram fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um aðstoðarmenn og ráðgjafa ráðherra. Þessi fyrirspurn er sett fram að gefnu tilefni fyrir margt löngu eða 10. febrúar. Tilefnið sem um ræðir var viðtal sem Þorfinnur Ómarsson átti á fréttastöðinni NFS, 28. janúar á þessu ári, við Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur. Hún var kynnt til viðtalsins sem ráðgjafi menntamálaráðherra og var spurð hvort svo væri ekki. Hún svaraði: Jú, takk. Þá spurði Þorfinnur: Hvað gerir ráðgjafi menntamálaráðherra?

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir svaraði, með leyfi forseta:

„Ja, það er góð spurning. Hérna, það er svona meira pólitískt starf heldur en venjulegur fagmaður inni í ráðuneyti. En ég er svona með skólamálin dálítið á minni hendi, sem eru ekki lítil, og er svona að skoða málin áður en ráðherra tekur ákvarðanir og hjálpa henni við ýmsar skoðanir á málum.“

Þorfinnur spyr þá:

„Sumir segja að menntamálaráðherra sé eini ráðherrann sem hafi tvo aðstoðarmenn, ekki bara einn heldur tvo. Þú ert sem sagt númer tvö?“

Þá svarar Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir: „Já, sumir — já, ætli það sé ekki alveg hægt að segja það.“

Með öðrum orðum: Viðmælandi Þorfinns á opinberum vettvangi staðfestir að hún sé ráðin í menntamálaráðuneytið sem pólitískur aðstoðarmaður eða ráðgjafi ráðherra en falli ekki undir hið almenna embættismannakerfi.

Nú minnti mig að í lögum um Stjórnarráð Íslands væru ákvæði sem bönnuðu fleiri en einn aðstoðarmann og þegar ég fór og skoðaði lögin þá segir þar skýrum orðum:

„Ráðherra er heimilt að kveðja sér til aðstoðar, meðan hann gegnir embætti, mann utan ráðuneytis, sem starfi þar sem skrifstofustjóri, enda hverfi hann úr starfi jafnskjótt sem ráðherra, en njóti þá launa þrjá mánuði …“ — o.s.frv.

Það stendur skýrt í lögunum að ráðherra má ráða í ráðuneytið mann, einn mann utan ráðuneytis, sem starfi þar sem aðstoðarmaður ráðherra. Það er hvergi að finna, í lögum um Stjórnarráð Íslands, neina heimild til að fleiri pólitískir aðstoðarmenn eða pólitískir ráðgjafar, sem eru þá persónulegir aðstoðarmenn viðkomandi ráðherra, séu ráðnir í ráðuneytin.

Í þessu sambandi veltir maður fyrir sér, þegar maður horfir utan frá á nýjan upplýsingafulltrúa í forsætisráðuneytinu, sem út á við virðist a.m.k. starfa sem aðstoðarmaður hæstv. forsætisráðherra, skrifar greinar sem slíkur og kemur fram sem slíkur, hvort farið sé að lögum, í ljósi mjög skýrra lagaákvæða. Ég spyr hæstv. ráðherra:

1. Geta ráðherrar ráðið ótakmarkaðan fjölda aðstoðarmanna eða ráðgjafa í fast starf í ráðuneyti sínu? Ef um takmarkanir er að ræða, hverjar eru þær?

2. Hafa einhverjir ráðherrar ráðið til sín aðra starfsmenn en hefðbundinn aðstoðarmann? Ef svo er, um hvaða ráðherra er að ræða, hverjir eru starfsmennirnir og hvaða störfum gegna þeir?