132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Aðstoðarmenn og ráðgjafar ráðherra.

517. mál
[12:08]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég gæti trúað hæstv. forsætisráðherra fyrir því að ég tel ekki vanþörf á að bæta við einum eða tveimur ráðgjöfum í menntamálaráðuneytið. En auðvitað verða menn að fara eftir lögum.

Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að breyta þessum lögum. Ég tel að sérhver ráðherra sem kemur nýr inn í ráðuneyti eigi að eiga kost á að ráða með sér nokkra pólitíska aðstoðarmenn. Ég tel t.d. að í stórum ráðuneytum eins og menntamálaráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu eigi menn að fá að taka inn með sér þrjá pólitíska aðstoðarmenn. Ég tel að það sé ekki vanþörf á að hafa slíkan starfskraft til að aðstoða ráðherrann við að koma málum í framkvæmd, sem hann hefur sagt að hann vilji berjast fyrir.

Hins vegar tel ég að ráðuneytisstjórar hafi á síðustu árum orðið fullpólitískir. Þeir eru farnir að gegna starfi pólitísks ráðgjafa, finnst mér stundum. Það á ekki að vera og á að gera þá sjálfstæðari og sterkari en þeir eru í dag.