132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Aðstoðarmenn og ráðgjafar ráðherra.

517. mál
[12:09]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn. Það er alltaf áhugavert fyrir okkur óbreytta þingmenn að velta þessum hlutum fyrir okkur. Þá vitum við hvað við eigum að gera þegar við verðum ráðherrar.

Ég hef svolítið fylgst með þessu. Ég velti því t.d. fyrir mér um daginn þegar aðstoðarmaður hæstv. forsætisráðherra, sem hér hefur verið til svara, skrifaði mikla skammargrein um stjórnarandstöðuna hvort það væri tilhlýðilegt að opinberir embættismenn sinntu slíkum ritstörfum undir fullum starfstitli sem upplýsingafulltrúar forsætisráðuneytisins. Af þeim orsökum spurði ég um laun og önnur ráðningarkjör þessa meinta upplýsingafulltrúa og hverjir hefðu gegnt þeirri stöðu undanfarin tíu ár. Ég hef því miður ekki enn fengið svar við þeirri fyrirspurn.

Með þessu vil ég ekki segja að menn hafi ekki málfrelsi þótt þeir séu embættismenn, alls ekki. En mér finnst að þeir ættu frekar að tjá sig sem prívatpersónur en ekki sem embættismenn.

Virðulegi forseti. Þetta eru hlutir sem alltaf er gaman að velta fyrir sér.