132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Samkeppnisstaða fiskverkenda.

587. mál
[12:35]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Fjallað hefur verið um umrædda samkeppnisstöðu í tveimur álitum þáverandi samkeppnisráðs, áliti nr. 6/1996 og 2/2000. Í báðum þessum álitum benti samkeppnisráð á að aukið frelsi til framsals aflaheimilda, t.d. með þeim hætti að unnt væri að verða sér úti um aflahlutdeild án þess að eiga skip, væri til þess fallið að efla virka samkeppni á þeim markaði sem um ræðir. Jafnframt yrði samkeppnisstaða aðila á fiskvinnslumarkaði að vissu marki jöfnuð og aðgangur nýrra keppinauta að markaðnum auðveldaður.

Samkvæmt 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, sbr. 1. gr. laga nr. 1/1999, geta þeir aðilar sem fullnægja tilteknum almennum skilyrðum fengið veiðileyfi til veiða í atvinnuskyni í íslenskri efnahagslögsögu. Hins vegar verður slíkur aðili jafnframt að verða sér úti um kvóta til veiða á þeim tegundum sem háðar eru takmörkun á leyfilegum heildarafla samkvæmt ákvörðun sjávarútvegsráðherra. Slíkum veiðiheimildum er aðeins úthlutað til einstakra skipa. Fiskvinnslufyrirtæki sem hyggst veiða eigin afla til vinnslu er því nauðsynlegt að kaupa skip og kaupa eða leigja kvóta samkvæmt þeim reglum sem um þau viðskipti gilda að lögum. Fiskvinnslufyrirtæki sem af einhverjum ástæðum telja sig ekki hafa möguleika á að veiða sjálf afla til vinnslu verða að kaupa hráefni af útgerð sem hefur veiðiheimildir samkvæmt framangreindum reglum.

Í áliti samkeppnisráðs, nr. 6/1996, var bent á að frjálst framsal aflaheimilda sem leiði óhjákvæmilega til þess möguleika að útgerðir fénýti aflaheimildir í tengdum rekstri, t.d. fiskvinnslu, hafi komið til með setningu laga nr. 38/1990. Með þessu hafi skapast ákveðinn aðstöðumunur milli annars vegar fiskvinnslustöðva án útgerðar og hins vegar fiskvinnslustöðva með útgerð. Hins vegar verði að hafa í huga að sú breyting í fiskveiðistjórn, sem fólst í því að kvótakerfi var komið á upphaflega, beindist fyrst og fremst að útgerðum. Hins vegar höfðu lög um stjórn fiskveiða óbein áhrif á annan atvinnurekstur en sjálfa útgerðina. Sá aðstöðumunur til hráefnisöflunar sem af kvótakerfinu hefur leitt var þó einnig til staðar að hluta áður en kvótakerfi var komið á, þ.e. sum fyrirtæki ráku bæði útgerð og fiskvinnslu, önnur aðeins fiskvinnslu fyrir daga kvótakerfisins.

Samkeppnisráð benti einnig á að hafa þyrfti í huga að of rík tilhneiging til jöfnunar á rekstrarlegri stöðu fyrirtækja gæti haft þau óæskilegu áhrif að takmarka möguleika til hagræðingar og sérhæfingar og þar með unnið gegn markmiðum samkeppnislaga. Sem dæmi mætti nefna að samkeppnislegur ávinningur gæti verið af lóðrétt samþættum rekstri eins og þeim sem ætti sér stað þegar fyrirtæki ræki bæði útgerð og fiskvinnslu. Með vísan til þess var ekki talið hafa verið sýnt fram á að reglur sem heimila framsal á kvóta og fela í sér möguleika á fénýtingu hans í skyldum rekstri færu gegn markmiðum samkeppnislaga.

Hins vegar var bent á að skv. 5. gr. laga um stjórn fiskveiða væri það skilyrði sett fyrir úthlutun aflaheimildar eða yfirráðum yfir slíkri hlutdeild að hún væri bundin við skip. Það gæti auðveldað til muna aðgang fiskvinnslustöðva að hráefni og styrkt samkeppnisstöðu þeirra á markaði ef heimildir til skráningar aflahlutdeildar tækju einnig til fiskvinnslufyrirtækja.

Samkeppnisráð benti enn fremur á að fiskverkandi án útgerðar gæti orðið sér úti um hráefni með því að kaupa það á fiskmarkaði eða með því að eiga bein viðskipti við útgerð. Sá kostur væri einnig fyrir hendi að fiskverkandi án útgerðar keypti eða leigði kvóta. Þessi síðarnefnda aðgerð við hráefnisöflun kynni að hafa ýmsa kosti í för með sér sem gæti styrkt samkeppnisstöðu viðkomandi aðila, t.d. á erlendum mörkuðum. Fiskverkandi án útgerðar gæti þannig hugsanlega haft betri tök á að stjórna gæðum, magni og verði hráefnisins. Á hinn bóginn kallaði þessi aðferð á, að óbreyttum lögum, að fiskverkandi sem keypti eða leigði kvóta keypti einnig skip. Hafa bæri í huga að fiskvinnslustöðvar án útgerðar væru oft tiltölulega smá fyrirtæki sem stunduðu sérhæfðan rekstur. Smæð viðkomandi fiskvinnslu gæti komið í veg fyrir að hagkvæmt yrði fyrir hana að reka jafnframt útgerð. Telja yrði líklegt að ef þessi fyrirtæki hefðu tækifæri til þess að kaupa eða leigja aflahlutdeild án þess að þurfa jafnframt að festa kaup á skipi mundi það auka möguleika þeirra til að verða sér úti um hráefni. Slík breyting gæti þannig eflt samkeppni á fiskvinnslumarkaði auk þess sem hún mundi auðvelda nýju aðilum aðgang að þeim markaði.

Ég get í sjálfu sér tekið undir þessa niðurstöðu fyrrverandi samkeppnisráðs og það mundi verða til þess að efla samkeppni í fiskvinnslu ef þeir sem einungis stunda fiskvinnslu ættu möguleika á að kaupa eða leigja aflahlutdeild án þess að þurfa einnig að kaupa skip.