132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Samkeppnisstaða fiskverkenda.

587. mál
[12:42]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. síðasta ræðumanni að það hefði verið akkur í því ef hæstv. ráðherra hefði kveðið sterkar að orði um það hver afstaða hennar væri í þessu máli en verði ekki tíma sínum í það að lesa upp úr gömlum álitum samkeppnisráðs. Mér finnst þetta vera það stórt mál og sérstaklega í ljósi þess að hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir á heimasíðu sinni að hún vilji ekki föndra við sjávarútveginn og byggðirnar. En þá vil ég spyrja á móti: Vill hæstv. ráðherra láta eðlileg markaðslögmál gilda í þessum atvinnuvegi? Það er sú spurning sem hæstv. ráðherra ætti að svara hér skýrt, hvort eðlileg markaðslögmál eigi gilda þannig að menn sem ætla að taka þátt í þessum atvinnurekstri standi jafnir að vígi. Það blasir við öllum sem horfa yfir þetta svið, undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, að það er eitthvað að, nýir aðilar komast ekki inn í þessa atvinnugrein. Það mundi breyta talsvert miklu fyrir byggðirnar ef skilið væri á milli veiða og vinnslu vegna þess að þó svo að ákveðin byggðarlög, eins og Bíldudalur, misstu réttinn til fiskveiða vegna þessa kerfis, sem Framsóknarflokkurinn hefur komið á, þá væri möguleiki fyrir viðkomandi aðila að sækja sér fisk á markað eftir lögmálum markaðarins. Dæmin eru svakaleg, það er 30% verðmunur á hráefninu, og það er algerlega út úr korti að ætla fyrirtæki að keppa við annað fyrirtæki sem fær hráefnið, sem er stór hluti af kostnaði fyrirtækisins, á 30% hærra verði en samkeppnisaðilinn. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. ráðherra svari nú skýrar hver raunveruleg afstaða hennar er í þessu máli.