132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Meðferð mála hjá Samkeppniseftirlitinu.

627. mál
[12:57]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Mér finnst alveg eðlilegt að hv. þingmenn velti þessum hlutum fyrir sér sem hv. þingmaður hefur gert og spyrji sig þeirra spurninga hvort sú breyting sem gerð var hafi verið rétt og hvort Samkeppniseftirlitið sem slíkt skili starfi sínu vel, það eru bara mjög eðlilegar spurningar. Ég tel að svo sé, en ítreka það sem kom fram í máli mínu áðan að ekki er ástæða til þess alveg strax að hafa uppi stóru orðin, við skulum aðeins gefa okkur tíma til að fara yfir stöðuna. En allt það sem hefur komið fram gagnvart ráðuneytinu síðan Samkeppniseftirlitið varð til segir mér að þarna sé haldið vel á málum og þær vinnureglur sem settar hafa verið lofa mjög góðu að mínu mati. Sérfræðingum hefur verið fjölgað. Mér er hins vegar kunnugt um að mikil spenna er á markaðnum og ekki alltaf auðvelt að fá starfsfólk í nákvæmlega þau störf sem um ræðir. Engu að síður hefur stofnunin verið efld fjárhagslega sem hefur leitt til þess að þarna hefur verið hægt að fjölga starfsfólki. Það er gríðarlega mikilvægt starf sem þar er unnið og þess vegna ástæða til að það sé til umfjöllunar á hv. Alþingi og ég hef leitast við að svara þeirri spurningu sem hv. þingmaður bar hér upp.