132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Ívilnanir til álvera á landsbyggðinni.

631. mál
[13:09]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Í þessu máli er um það að ræða að það er opinber stefna stjórnvalda að beita ívilnun og sérkjörum hvað varðar skatta og verðlagningu á raforku til þess að stuðla að atvinnuuppbyggingu á ákveðnu landsvæði. Það er stefna sem er þekkt víða og menn beita en afmarka ekki einvörðungu við eina tiltekna atvinnugrein eins og er í þessu tilviki.

Ég held að íslensk stjórnvöld verði í ljósi þess að slík stefna skilar árangri — hún skilar árangri í atvinnuuppbyggingu á Austurlandi og mun reyndar væntanlega gera það á Norðurlandi líka með álveri þar — að beita sömu stefnu á öðrum svæðum landsins. Þá er ég ekki síst með í huga svæði eins og Vestfirði þar sem störfum hefur fækkað á aðeins sex árum um tæp 10%. (Forseti hringir.) Ég hvet til að menn gangi áfram (Forseti hringir.) á þeirri braut en afmarki sig ekki við eina atvinnugrein, virðulegi forseti.