132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Merkingar á erfðabreyttum matvælum.

606. mál
[13:39]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra deili þeirri skoðun með mér að merkja eigi matvæli á Íslandi sem eru erfðabreytt. Ég verð samt að lýsa því, eins og hv. þm. Björgvin Sigurðsson gerði, að mér finnst þetta ganga of hægt hjá okkur. Það er ekkert því til fyrirstöðu að við tökum þetta mál sérstaklega út ef við leggjum þannig áherslu á það og gerum kröfur um að þessi matvæli verði merkt.

Eins og komið hefur fram eru þær matvörur sem að mestu leyti eru með þessum erfðabreyttu þáttum í, t.d. barnamatur, popp, kex og morgunkorn, sem börn borða mikið af. Ég tel þetta afar mikilvægt.

Fram hefur komið að meiri hluti ríkja og landa í heiminum, fyrir utan ríki í bæði Norður- og Suður-Ameríku, hefur farið þessa leið og tekið sterkari varúðarafstöðu gagnvart erfðabreyttum matvælum. Það er mín skoðun að við eigum að vera með hinum meðvituðu þjóðum í Evrópu sem vilja fara varlega. Eins og við vitum geta erfðabreytt matvæli haft ofnæmisvaldandi áhrif. Við ættum ekki hanga með slugsunum í þessu, sem eru aðallega Bandaríkjamenn og Kanadamenn að einhverju leyti, Argentína og ríki í Ameríku.

Við eigum að fara evrópsku leiðina og við eigum að veita fólki hér á landi sem allra, allra fyrst þann rétt að velja sér matvæli án erfðabreyttra þátta. Það er að mínu mati verið að skerða réttindi manna meðan þessi krafa er ekki gerð hér. Þá erum við að skerða (Forseti hringir.) réttindi manna til þess að velja sér fæðu við hæfi.