132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Malarnáma í Esjubergi.

658. mál
[13:47]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir svarið svo langt sem það náði. Ég veit að þetta mál heyrir á vissan hátt undir Reykjavíkurborg en mér þótti samt sem áður rétt að taka það upp í þingsalnum til að vekja athygli á því. Við erum meira að segja þess heiðurs aðnjótandi að hafa borgarfulltrúa í salnum sem situr hér og heyrir mál okkar, hv. þm. Helgi Hjörvar. Ég vona að hann taki þetta efni til gaumgæfilegrar athugunar í borgarstjórn Reykjavíkur og ég skora einnig á aðra borgarfulltrúa sem sitja á þingi og eru kannski að hlusta á mál okkar að taka þetta mál líka til gaumgæfilegrar umfjöllunar í borgarstjórn Reykjavíkur. Ég mun sjálfur sjá til að borgarfulltrúi F-listans, Ólafur F. Magnússon læknir, kanni þetta mál nánar innan borgarstjórnar Reykjavíkur, því að ég tel svo sannarlega að kominn sé tími til að eitthvað verði gert varðandi þetta svæði. Mér finnst algerlega ótækt að slík svæði séu látin vera eins og þetta svæði er árum saman eftir að ljóst er að stórum hluta vinnslunnar hefur verið hætt, eins og gapandi svöðusár í landslaginu, sár sem skapar jafnvel hættu fyrir vegfarendur. Það er enginn vafi á því að þetta skapar óþægindi fyrir vegfarendur. Ég tel algerlega ótækt að menn séu látnir komast upp með þetta.

Ég mundi gera það að tillögu minni að eigendum þessarar námu yrði tafarlaust gert að gera eitthvað í þessum málum, að gera hreint fyrir sínum dyrum og helst að sjá til þess að svæðið yrði grætt upp og gengið frá náttúrunni þannig að það sé mönnum sæmandi. Mér finnst að við slíkt ófremdarástand, sem ríkir nú á þessum stað og hefur gert mjög lengi, sé ekki hægt að una lengur og hvað sem öllum reglum varðandi malarnám líður þá sé tími til kominn að menn geri bragarbót á þessu máli.