132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Ljósmengun.

672. mál
[13:52]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Þessari fyrirspurn hefur verið valið nafnið ljósmengun í samræmi við það orðalag sem á henni er. Í raun og veru væri nær að kalla hana jákvæðara nafni. Það mætti t.d. kalla hana „varðveisla næturhiminsins“ eða „skynsamleg orkunýting“ eða „samkomulag nágranna um næsta umhverfi sitt“, vegna þess að alla þessa þrjá þætti spannar þetta hugtak, ljósmengun, sem er tiltölulega nýtt og var fyrst fest í Alþingistíðindi í fyrra í fyrirspurn sem ég flutti þá og var raunar orðuð á nákvæmlega sama hátt.

Það er í fyrsta lagi óþægindi og ami að því fyrir nágranna ljósmengandi staða að stilla ekki ljósmagni í hóf, sérstaklega á það auðvitað við um nætur eins og menn þekkja sem hafa búið við slíkt. Það getur verið ami að því að búa á ljósmiklum svæðum og full ástæða til að taka mark á kvörtunum af því tagi. Í öðru lagi vakna spurningar í þessu sambandi um orkunýtingu, hvort menn séu að nýta orkuna skynsamlega á þeim tímum þar sem orkan skiptir alltaf meira og meira máli og verður dýrari og dýrari, hvort sem mælt er í krónum á bensíntunnu eða í umhverfisspjöllum á landi þar sem menn eru að lýsa beint upp í loftið og verja hugsanlega helmingi meiri orku en þarf þegar meiningin var að lýsa beint niður á t.d. umferðarmannvirki eða aðra merkilega staði sem þarf lýsingar við.

Í þriðja lagi eru það svo þau mikilvægu lífsgæði sem felast í því að mannkynið geti notið fegurðar alstirnds næturhimins. Það er sannarlega mikil upplifun að gera það og vekur hugrenningar sem allir kannast við um stærð veraldarinnar og eðli guðs almáttugs og eigin smæð sem ýmsum er hollt að hugsa meira um, bæði í þingsalnum og þeim sem utan hans standa, og er ákaflega mikilvægt uppeldislegt mál fyrir börnin okkar. Ég verð að segja að frá uppeldi mínu hér í Reykjavík man ég eftir þessum alstirnda næturhimni. Lýsingin var ekki meiri en svo að það mátti fara hérna rétt niður í Vatnsmýri eða út fyrir götuna til þess.

Nú hefur þeim stöðum í hinni eiginlegu Reykjavík mjög fækkað og það þarf að fara nokkuð langa leið til að losna við ljósmengun, jafnvel allt til Þingvalla, að Kleifarvatni eða á hæðir nokkuð fyrir utan byggð.

Ég vil spyrja umhverfisráðherra, þó að ég viti að þetta sé kannski ekki það mál sem mest brennur á í umhverfisráðuneytinu og í störfum hennar, hvort þetta hafi verið hugleitt á hennar vegum (Forseti hringir.) og hvort einhver ráðagerð sé til í þessu efni.