132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Ljósmengun.

672. mál
[13:55]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Eins og við vitum öll stafar ljósmengun af mannlegum umsvifum þegar mikil lýsing veldur því að stjörnuhiminn sést illa. Í íslenskum lögum eru engin ákvæði eða skilgreiningar er varða ljósmengun beint eða aðgerðir til að takmarka hana. Það eru t.d. engar vísbendingar í lögskýringargögnum með lögum nr. 7 frá 1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, eða í fyrri lögum um sama efni, að þeim hafi verið ætlað að taka til ljósmengunar.

Hins vegar er gert ráð fyrir því í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir að ráðherra setji í reglugerð almenn ákvæði um tiltekin atriði til að stuðla að mengunarvarnaeftirliti, en ráðstafanir til að sporna gegn ljósmengun og athugun á henni falla ekki þar undir. Það er því alveg ljóst að ættu stjórnvöld að takmarka hugsanlega ljósmengun þyrfti að festa í lög ákvæði þar um.

Ljósmengun hefur ekki verið til umfjöllunar í ráðuneytinu fram til þessa. Það hafa ekki komið fram neinar beinar tillögur í þá veru, hvorki frá stofnunum ráðuneytisins né öðrum, og þar að auki hafa ekki farið fram rannsóknir hér á landi um t.d. viðhorf almennings eða ferðamanna til ljósmengunar eða á umfangi og útbreiðslu hennar. Hins vegar er auðvitað alveg ljóst að það eru kannski fáar borgir og bæir í veröldinni meira upplýst en hér hjá okkur. Mér er það fullkomlega ljóst.

Það er samt vitað að hingað koma ferðamenn í þeim tilgangi einum að skoða norðurljósin. Ég tel að það sé mjög vel mögulegt að njóta næturhimins víða um landið og fara þarf bara tiltölulega stutt frá þéttbýli í flestum tilvikum til þess. Aftur á móti varða mjög margar athugasemdir og fyrirspurnir um ljósmengun lýsingu í gróðurhúsum. Það hefur aðallega verið umkvörtunarefni hér á landi þar sem notuð eru notuð sterk ljós sem sjást stundum mjög langt að. Slíkur ljósbjarmi, sem berst langar leiðir frá þéttbýli eða jafnvel orlofshúsabyggð, er algengur hér á landi á vetrarkvöldum og nóttum. Það væri auðvitað auðvelt að laga þetta, a.m.k. að draga úr því með daufari ljósum og betri frágangi. Þá er líka mögulegt að nota lampa í gróðurhúsin sem nýta ljósið betur og beina því ekki upp. Sveitarfélög geta tekið á þessu málum, t.d. á vettvangi skipulagsmála og í vinnu við Staðardagskrá 21. Það væri möguleiki að skoða þessi mál sérstaklega í tengslum við þetta.

Ég vil geta þess í tilefni af þessu að árið 2000 setti Borgarbyggð ákvæði í umhverfisstefnu sína sem kveður á um að við uppsetningu og endurnýjun götulýsingar verði þess gætt að ljósmengun utan svæðis verði í lágmarki. Hins vegar hefur það ekki verið sett í forgang í umhverfisráðuneytinu að athuga ljósmengun hér á landi eða að gera sérstakar áætlanir í þá veru, a.m.k. ekki í náinni framtíð. En ég vil hins vegar segja það hér, og hef raunar sagt það áður, að mér finnst þessi umræða mjög athyglisverð og eins og fyrirspyrjandi nefndi réttilega geta verið óþægindi og ami að því að ljósmagni sé ekki stillt í hóf.

Ég vil geta þess sérstaklega, af því ég nýt þeirra forréttinda að búa úti í sveit, að ég viðurkenni það að ég sé til þess að slökkva ljós á kvöldin svona um tíuleytið. Það er auðvitað fyrst og fremst vegna þess að mér finnst dýrðlegt að geta notið þeirra forréttinda að sjá stjörnubjartan himin og þau fyrirbæri sem eru á næturhimninum. Það eru sannarlega mikil lífsgæði og ég tek undir að það eru líka heilmikil uppeldisáhrif í því fólgin að geta notið þeirra fyrirbæra sem eru á hinum dýrðlega næturhimni á Íslandi.