132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Ljósmengun.

672. mál
[14:00]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að ljósmengun er nokkuð sem við ættum að ræða. Fyrir ætti að liggja áætlunargerð af hálfu stjórnvalda hvað það varðar. Það kemur mér á óvart hve framandi þessi umræða er hæstv. umhverfisráðherra.

Það liggur fyrir að á Íslandi er ljósanotkun mjög glannaleg og er mikil orkusóun á Íslandi. Það blasir við öllum sem skoða aðeins í kjölinn á málinu. Þótt seint sé og búið að byggja upp mikið af nútímalegu og öflugu þéttbýli á suðvesturhorninu er ekki of seint að grípa í taumana með þeim hætti að fyrir liggi aðgerðir af hálfu stjórnvalda til að takmarka ljósmengun og ná utan um vandamálið. Það er sjálfsagt að stilla þessu í hóf. Þetta er sóun eins og hver önnur sóun og þetta er mengun eins og hver önnur mengun.

Ég skora á hæstv. umhverfisráðherra, sem tekur fyrirspurninni vel, að ráðast í slíka áætlanagerð.