132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

ILO-samþykkt um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda.

756. mál
[14:26]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra varðandi svokallaða ILO-samþykkt um uppsögn starfsmanna af hálfu atvinnurekenda. Á heimasíðu verkalýðsfélagsins Hlífar má m.a. sjá útfærslu á aðalatriðum samþykktarinnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Reglur um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda.

1. gr.

Atvinnurekandi skal ekki segja starfsmanni upp starfi nema til þess sé gild ástæða í sambandi við hæfni eða hegðun starfsmanns, eða uppsögnin sé sannanlega byggð á rekstrarlegum ástæðum fyrirtækisins, stofnunarinnar eða þjónustunnar.

2. gr.

Eftirtalin atriði eru meðal þeirra sem ekki teljast gildar ástæður til uppsagnar:

a. aðild að stéttarfélagi eða þátttaka í starfsemi stéttarfélags utan vinnutíma, eða í vinnutíma með samþykki atvinnurekanda;

b. að leita eftir því að gegna trúnaðarstarfi sem trúnaðarmaður launafólks eða starfa eða hafa starfað sem slíkur“ — o.s.frv.

Fleiri atriði eru nefnd en síðan segir, með leyfi forseta:

„e. fjarvist frá vinnu í fæðingarorlofi;

f. aldur starfsmanns;

g. fjarvist frá starfi um stundarsakir vegna veikinda eða slysa.

3. gr.

Atvinnurekandi skal ávallt, með eins góðum fyrirvara og hægt er, upplýsa viðkomandi stéttarfélag og trúnaðarmann um ástæðu uppsagnar starfsmanns. Ef atvinnurekandi, einhverra hluta vegna, bregst þeirri skyldu sinni að upplýsa félagið og viðkomandi trúnaðarmann tímanlega um uppsögn starfsmanns þá telst uppsögnin ógild.“

Jafnframt segir í 6. gr.:

„Þegar atvinnurekandi hefur í hyggju uppsagnir af efnahagslegum, tæknilegum, skipulagslegum eða svipuðum ástæðum skal hann:

a. með góðum fyrirvara gefa viðkomandi stéttarfélagi og trúnaðarmanni viðeigandi upplýsingar, þar á meðal ástæður fyrirhugaðra uppsagna, fjölda starfsmanna, starfsheiti og á hvaða tímabili gert er ráð fyrir að uppsagnir fari fram.“

Eins og hér kemur fram, frú forseti, þá er þessi ILO-samþykkt nr. 158 afskaplega þýðingarmikil fyrir íslenska starfsmenn. Ísland eitt Norðurlanda hefur ekki fullgilt samþykktina. Mörg önnur Evrópuríki hafa gert það. Hvers vegna Ísland hefur ekki gert það veit ég ekki og spyr því hæstv. félagsmálaráðherra:

Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ILO, nr. 158, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda, verði lögleidd hér á landi? Ef ekki, hvers vegna?