132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

ILO-samþykkt um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda.

756. mál
[14:29]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Valdimar L. Friðriksson hefur beint til mín fyrirspurn um hvort ég muni beita mér fyrir því að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ILO, nr. 158, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda, verði lögleidd hér á landi og ef ekki, hvers vegna.

Fyrst vil ég geta þess að spurningin um fullgildingu ILO-samþykktarinnar hefur þrívegis komið til athugunar á vettvangi félagsmálaráðuneytisins frá því að skýrslu um 68. alþjóðavinnumálaþingið árið 1984 var dreift til þingmanna, fyrst árið 1985, síðan árið 1994 og þá árið 2005. Í árslok 1994 var Alþjóðavinnumálastofnuninni send skýrsla íslenskra stjórnvalda um framkvæmd samþykktar nr. 158 sem tekin var saman á grundvelli 19. gr. stofnskrár ILO. Niðurstaða þeirrar athugunar sem fram hefur farið hefur leitt í ljós að aðstæður á Íslandi hafa ekki verið og eru ekki að öllu leyti í samræmi við ákvæði samþykktarinnar. Forsenda fullgildingar er að aðstæðum sé breytt er til samræmis við það sem áskilið er í samþykktinni. Það er hægt að gera með tvennum hætti, með kjarasamningum aðildarsamtaka vinnumarkaðarins eða lagasetningu.

Það er stefna ríkisstjórnarinnar að eiga sem best samstarf við aðildarsamtök vinnumarkaðarins og láta þeim sem mest eftir að semja um þær reglur sem gildi í samskiptum launafólks og atvinnurekenda. Fyrir tæpu ári hélt þáverandi félagsmálaráðherra samráðsfund með fulltrúum Alþýðusambandsins. Við það tækifæri voru honum kynntar ályktanir sem ársfundur ASÍ hafði samþykkt. Þeirra á meðal var áskorun til félagsmálaráðherra um að beita sér fyrir fullgildingu samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 158, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda.

Það varð að ráði að fela samráðsnefnd félagsmálaráðuneytisins um málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar að fara yfir málið en í henni eiga sæti fulltrúar Samtaka atvinnulífsins og ASÍ auk ráðuneytisins.

Á minnisblaði til félagsmálaráðherra, dagsettu 13. október 2005, gerði samráðsnefndin grein fyrir umfjöllun nefndarinnar um þetta mál. Á minnisblaðinu kemur fram að Alþýðusambandið telji að aðstæður á vinnumarkaði hafi breyst verulega á undanförnum árum, krafan um meiri framleiðni hafi orðið ákveðnari og henni hafi fylgt endurskipulagning fyrirtækja og uppsagnir með tilheyrandi ólgu og óöryggi. Málið snúist ekki um að vefengja rétt atvinnurekenda til að segja upp starfsmanni heldur fyrst og fremst um rétt starfsmanna til að fá upplýsingar um ástæður uppsagnar og hvort þær byggist á málefnalegum ástæðum.

Alþýðusambandið hefur bent á að starfsmönnum sé mismunað á þessu sviði eftir því hvort þeir starfa á almennum vinnumarkaði eða í þjónustu hins opinbera. Á minnisblaðinu kemur fram að sjónarmið atvinnurekenda varðandi fullgildingu samþykktarinnar eru óbreytt. Samtök atvinnulífsins leggja höfuðáherslu á að varðveita sveigjanleika íslensks vinnumarkaðar og telja að hann hafi leitt til þess að atvinnusköpun og uppbygging hafi verið hraðari hér eftir efnahagssamdráttinn í nágrannalöndunum. Þau telja skýringuna fyrst og fremst sveigjanleika reglna í atvinnulífinu. Samtök atvinnulífsins telja að auki að ráðningarvernd komi verst niður á þeim hópum sem síst skyldi, þ.e. hópum sem standa lakast á vinnumarkaðnum. Ósveigjanlegar reglur á þessu sviði haldi slíkum hópum utan við vinnumarkaðinn. Samtökin telja að samþykkt nr. 158 ekki gott form á ráðningarverndinni.

Af þessu sést að býsna langt er milli sjónarmiða samtaka atvinnurekenda og launafólks í þessu máli. Það er hins vegar sameiginlegt hagsmunamál launafólks, fyrirtækja og samfélagsins í heild að á íslenskum vinnumarkaði ríki góður vinnuandi og starfsmenn búi við sem best vinnuskilyrði.

Ég hef með hliðsjón af þessu ákveðið að fela Rannsóknarsetri vinnuréttar og jafnréttismála við Viðskiptaháskólann í Bifröst að semja tillögur að leiðbeiningareglum í anda þess sem kemur fram í samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 158. Tillaga Rannsóknarseturs vinnuréttar og jafnréttismála um samskiptin við Alþjóðavinnumálastofnunina verður lögð fyrir samráðsnefnd ráðuneytisins og helstu samtaka vinnumarkaðarins. Tillagan verður lögð þar fram til umfjöllunar en ég legg áherslu á það að farsælast er að aðilar vinnumarkaðarins semji um þær reglur sem gilda í samskiptum launafólks og atvinnurekenda.