132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Innflutningur á erfðabreyttu fóðri.

697. mál
[14:36]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef lagt tvær fyrirspurnir fyrir hæstv. landbúnaðarráðherra um innflutning á erfðabreyttu fóðri, svohljóðandi:

1. Hve mikið er flutt inn af erfðabreyttum maís og erfðabreyttu sojamjöli og hvert er hlutfallið af heildarinnflutningi þessara fóðurvara?

2. Hvað líður innleiðingu reglugerða EB nr. 1829/2003, um rekjanleika og merkingar á erfðabreyttum lífverum og rekjanleika á matvæla- og fóðurvörum, og nr. 1830/2003, um rekjanleika efna sem innihalda erfðabreyttar lífverur, samanber fyrirspurn þessa efnis á 131. löggjafarþingi (404. mál)?

Hæstv. forseti. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir beindi fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra fyrr í dag um reglugerðir varðandi merkingar á erfðabreyttum matvælum og vissulega tengjast þessar fyrirspurnir. Það hefur gerst áður, í fyrsta lagi á 131. löggjafarþingi sem ég hef áður spurt um. Á 128. löggjafarþingi lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. landbúnaðarráðherra um lögleiðingu þessara reglugerða um erfðabreyttar lífverur og fóður og eftirlit með því. Ég tel að það sé engin tilviljun að nokkuð sé rekið á eftir harðari reglum en gilda í dag um merkingar á erfðabreyttum matvælum og um innflutning á erfðabreyttu fóðri. Meðvitund fólks er að aukast og skilningur á því að ekki sé allt orðið ljóst hvað varðar áhrif erfðabreyttra matvæla á heilsu fólks. Það tekur tíma, það tekur a.m.k. mannsaldur, að leiða í ljós áhrif þessa á heilsu manna.

Ég tel mikilvægt að neytendur fái að vita hvernig húsdýr til matvælaframleiðslu eru fóðruð, hvort það er með erfðabreyttu fóðri eða ekki og hvar þeir geti þá keypt (Forseti hringir.) íslensk matvæli sem innihalda ekki erfðabreyttar vörur.