132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Innflutningur á erfðabreyttu fóðri.

697. mál
[14:47]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Það er kannski tímanna tákn að einhver leyfi sér að segja: Matvælaöryggi er það sem við viljum sjá á Íslandi. Hv. þm. Þuríður Backman veit sem er að Ísland sker sig að margra mati úr hvað matvælaöryggi varðar, okkar hreinu landbúnaðarafurðir, gróður okkar jarðar, hvað Ísland er í rauninni hreint og laust við mengun, hvað dýraheilbrigði er hér mikið.

Svo er það hitt sem hv. þingmaður hefur hér farið yfir að við urðum auðvitað aðilar að EES-samningnum og við þurfum að fylgja því eftir og vera þar samstiga Norðmönnum og fleirum um að setja reglur um að t.d. fóður, sem fer yfir ákveðið hlutfall, sé merkt sé það erfðabreytt. Þetta er sú vinna sem liggur fyrir. En ég fullyrði það að hér er mjög vel fylgst með öllum innflutningi, aðfangaeftirlitið og Landbúnaðarstofnun gerir það og það er auðvitað mikil samvinna á milli ráðuneyta um að skapa hér sem mest öryggi. Við höfum gert það bæði með áburðinn á jörðina og við gerum það með fóðrið til dýranna.

Ég sagði hér áðan að hér yrði mjög merkileg ráðstefna haldin í sumar á vegum ráðuneytisins, Landbúnaðarháskólans og Bændasamtakanna til þess að fara yfir reglugerðirnar, yfir mikilvægi þess hvernig við stöndum að þessu máli, notkunina á efnum, þannig að þar verður fróðlegur fundur sem ég held að hv. þingmenn ættu að sækja og vera með þeim innlendu og erlendu vísindamönnum sem munu setja svip á þá ráðstefnu og ræða þetta mál sem mjög er rætt um núna.

Ég fullyrði hér að Íslendingum er engin hætta búin. Við stöndum af miklu öryggi að okkar málum og búum við hollustu og góðar afurðir og gott búfjárfóður.