132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Sjúkraliðar.

661. mál
[14:50]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held það hafi ekki farið fram hjá neinum að á sjúkrastofnunum og hjúkrunarheimilum hefur skapast neyðarástand vegna manneklu.

Um þetta fóru fram utandagskrárumræður hér á Alþingi fyrir fáeinum dögum og sagði hæstv. heilbrigðisráðherra við það tilefni, með leyfi forseta:

„Það eru hjúkrunarfræðingarnir og sjúkraliðarnir sem eru mesta framtíðarvandamálið og ekki síst sjúkraliðarnir sem frekar fáir hafa gert hér að umtalsefni. Ég hef mun meiri áhyggjur af stöðu sjúkraliða í framtíðinni en af stöðu hjúkrunarfræðinga þó að umræðan hér snúist mest um hjúkrunarfræðinga, það er líka vandi þar. En ég hef meiri áhyggjur af sjúkraliðunum í framtíðinni.“

Svo mæltist hæstv. heilbrigðisráðherra við umræður á Alþingi fyrir fáeinum dögum. Fyrirspurn mín lýtur einmitt að þessum skorti á sjúkraliðum og því framtíðarvandamáli sem hann skapar. Nú er þetta ekki nýr vandi og það ástand sem nú er uppi ekki ófyrirséð. Ýmislegt má nefna sem varpað hefur ljósi á þennan vanda og vil ég vísa í rannsókn sem gerð var á vegum landlæknisembættisins árið 2001 en þar kom fram að þá þegar vantaði sjúkraliða í rúmlega 850 stöðugildi. Það kom einnig fram að vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar og þess að einhverjir hætta störfum á hverju ári fyrir aldurs sakir væri ljóst að fjölga þyrfti í heilbrigðisþjónustunni um 300 einstaklinga með sjúkraliðaréttindi á hverju ári á næstu fimm árum og síðan trúlega um 100 sjúkraliða á ári.

Hvað hefur gerst? Í fyrsta lagi komu engir 850 sjúkraliðar í þær stöðuheimildir sem þurfti að fylla, hvað þá að 300 sjúkraliðar bættust við á ári hverju eins og skýrsla landlæknis kvað nauðsynlegt. Á árinu 2003 voru veitt 70 ný leyfisbréf, á árinu 2004 voru þau 120 og á síðasta ári voru þau 90 og fyrirsjáanlegt er að þeim fari fækkandi. Ég minni á að samkvæmt skýrslu landlæknisembættisins hefði fjölgunin þurft að vera 300 á hverju ári ofan á 850.

Nú er mér kunnugt um að hæstv. heilbrigðisráðherra átti nýlega fund með forsvarsmönnum Sjúkraliðafélags Íslands þar sem þessi mál voru rædd. Er mér kunnugt um að sá fundur hefur skapað væntingar um að gripið verði til aðgerða. Mín spurning, sem liggur hér fyrir, vísar aftur í tímann og spyr hvað gert hafi verið þótt að sjálfsögðu væri nær að spyrja hvað sé á döfinni.

Spurningar mínar eru þessar, með leyfi forseta:

1. Hvað hefur ráðuneytið gert til þess að stuðla að fjölgun í stétt sjúkraliða í ljósi vaxandi eftirspurnar eftir sjúkraliðum á heilbrigðisstofnunum og viðvarandi undirmönnunar?

2. Hefur komið til álita að breyta verksviði sjúkraliða til samræmis við sambærilegar stéttir annars staðar á Norðurlöndum?