132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Sjúkraliðar.

661. mál
[14:58]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Nú ætla ég ekki að gera lítið úr nefndarstarfinu og ég geri heldur ekki lítið úr góðum vilja hæstv. ráðherra, sem ég hef reyndar engar efasemdir um — ráðherra hefur sýnt þessu málefni ágætan skilning. Ég tek jafnframt undir með ráðherra að betur má ef duga skal því að ástandið er geigvænlegt, það sýna allar skýrslur og allar athuganir og ég gerði grein fyrir því í máli mínu áðan. Það er þörf á róttækum aðgerðum.

Í fyrsta lagi þarf að hvetja ungt fólk til að koma inn í stéttina en til þess þarf að sjálfsögðu meira en orðin ein. Það þarf að horfa til launa og fjölskylduaðstæðna, samspil álags og vinnutíma skiptir að sjálfsögðu sköpum fyrir fjölskyldufólk.

Í öðru lagi er það brúin sem hæstv. ráðherra vék að. Það þarf að skapa því fólki sem leyst hefur þennan vanda á sjúkrahúsum og á hjúkrunarheimilum tækifæri til að afla sér starfsréttinda sem sjúkraliðar en það verður ekki gert nema því séu skapaðar aðstæður á vinnustað til að sækja nám án kjaraskerðingar. Einnig þarf að skapa skólunum tækifæri til að svara aukinni eftirspurn eftir náminu. Ég lagði við hlustir þegar hæstv. ráðherra vék að samræðum sínum við hæstv. menntamálaráðherra í þessu efni og það væri æskilegt að þingið yrði upplýst um gang viðræðna.

Einnig er á hitt að líta að huga má að breyttri verkaskiptingu á heilbrigðisstofnunum þannig að starfskraftar sjúkraliða verði nýttir í samræmi við menntun þeirra eins og hæstv. ráðherra vék einnig að. Þetta finnst mér að hljóti að koma til skoðunar en einnig hitt að með því að meta sjúkraliðanámið að verðleikum verður það án efa eftirsóknarverðari kostur fyrir ungt fólk en nú er.