132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Hjúkrunarheimili og öldrunarþjónusta.

765. mál
[15:03]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um hjúkrunarheimili og öldrunarþjónustu:

Hver er áætlaður kostnaður við að mæta þörfinni á dvöl á hjúkrunarheimilum á landinu öllu — uppsafnaðri og fyrirliggjandi þörf á hjúkrunarheimilum og plássum á hjúkrunarheimilum á landinu öllu?

Og önnur stór spurning:

Telur ráðherra það koma til greina að öldrunarþjónustan verði flutt til sveitarfélaga? — Því má fylgja eftir með því að mörg framboð til sveitarstjórna í stóru sveitarfélögunum hafa beinlínis á stefnuskrá sinni að öldrunarþjónustan verði flutt til sveitarfélaganna. Það er t.d. opinber stefna Samfylkingarinnar í Árborg og víðar á Suðurlandi að öldrunarmálin flytjist alfarið til sveitarfélaganna vegna þess að öldrunarmálin líði um margt fyrir það að innan málaflokksins skarast verksvið ríkis og sveitarfélaga verulega. Þarf að leita eftir samningum við ríkisvaldið til að taka yfir þann hluta þjónustunnar sem ríkið ber ábyrgð á í dag að því tilskildu að ríkið skapi sveitarfélögunum fjárhagslegar forsendur til þess. Ég er sannfærður um að það væri til mjög mikilla bóta að flytja öldrunarþjónustuna alfarið til sveitarfélaganna, það sé næsta skrefið í þá átt að dreifa valdi og verkefnum frá ríki til sveitarfélaga og yrði til að bæta þjónustuna stórum, rétt eins og þegar grunnskólinn fór fyrir 11 árum frá ríki til sveitarfélaga. Það sem er oft erfiðast í öldrunarþjónustunni er þessi skörun á milli ríkis og sveitarfélaga og það bitnar, stundum með blóðugum hætti, á gamla fólkinu, á þeim sem þjónustuna þurfa að fá. Ég skora á hæstv. heilbrigðisráðherra að taka vel undir það og stíga skref í þá átt að öldrunarþjónustan verði flutt alfarið frá ríki til sveitarfélaga.

Fyrri spurningin varðar hjúkrunarheimilin og er gífurlegt vandamál. Það er stórt vandamál í íslensku samfélagi, það er stórt vandamál í íslenskri velferðarþjónustu hve margir aldraðir fá ekki fullnægjandi vistun. Yfir eitt þúsund eldri borgarar deila herbergi með öðrum en sínum maka eða þeim sem þeir tengjast venslaböndum. Fimm hundruð eru, samkvæmt svari hæstv. heilbrigðisráðherra, í þörf og brýnni þörf eftir hjúkrunarheimilum. Leiða má að því líkur að þörf sé á um 1.000 herbergjum. Þetta er vaxandi vandamál og þetta er óviðunandi aðbúnaður fyrir gamla fólkið. Það er óviðunandi staða að þurfa að bíða á biðlistum og jafnvel að það þurfi að flytja fólk hreppaflutningum til að það fái þá umönnun sem það þarf. Þá er uppreisn umönnunarstéttanna á þessum stofnunum til marks um þann vanda sem er uppi í kjaramálum þeirra.

Ég beini þessum tveimur stóru spurningum til hæstv. heilbrigðisráðherra og vona að hún greiði úr með svörum sínum.