132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Hjúkrunarheimili og öldrunarþjónusta.

765. mál
[15:14]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir skýr svör og prýðileg. Það sem eftir stendur er að það kosti innan við 6 milljarða að byggja þau tæplega 400 rými sem vantar og rekstur þeirra sé í kringum 2 milljarðar á ári. Þetta segir okkur að um er að ræða ákaflega viðráðanlegt verkefni. Það er verkefni sem stjórnmálin eiga að taka á nú strax af því að þetta er brýnt verkefni. Eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði þá hefur fólkið ekki tíma til að bíða.

Þær tölur sem við tölum um hér eru rétt til að mæta þeirri þörf sem nú er til staðar og kannski varla það. En upp úr stendur að þetta er vel viðráðanlegt verkefni. Það verður að forgangsraða í þessa veru. Þetta er eitt stærsta verkefnið eins og við sjáum nú á þeim áherslum sem eru í umræðunni fyrir sveitarstjórnarkosningar. Öldrunarmálin eru langstærsta einstaka málið af því að þar hefur safnast upp gífurlegur vandi í tíð þessarar ríkisstjórnar. Sá vandi felst í skorti á hjúkrunarheimilum. Eitt þúsund aldraðir deila herbergjum með öðrum en maka sínum og fimm hundruð manns eru í þörf og brýnni þörf fyrir vist á hjúkrunarheimilum. Sá vandi felst líka í hörmulegum kjörum umönnunarstéttanna og má þá minnast á hálfgerða uppreisn gegn þeim sorgarkjörum sem þær stéttir búa við.

Ég vil í sjálfu sér fagna því að hæstv. heilbrigðisráðherra tekur undir að það sé æskilegt að öldrunarþjónustan sé öll á einni hendi og þá væntanlega á hendi sveitarfélaganna. Ég er ekki sammála því að sveitarfélögin séu ekki nógu burðug til að taka við henni. Þeim hefur fækkað gífurlega, eru nú 79 en voru 200 fyrir rúmum áratug. Það eru tilraunasveitarfélög sem hefur gengið vel að reka öldrunarþjónustuna, Hornafjörður og Akureyri. Við eigum að stíga næstu skref núna og ég skora á hæstv. heilbrigðisráðherra að endurskoða það, ráðast í það verkefni að byggja upp hjúkrunarrýmin og beita sér fyrir því af öllu sínu pólitíska afli að öldrunarþjónustan verði flutt til sveitarfélaganna.