132. löggjafarþing — 110. fundur,  26. apr. 2006.

Staða garðplöntuframleiðenda.

[15:44]
Hlusta

Ingvi Hrafn Óskarsson (S):

Virðulegi forseti. Fátt er jafnlíklegt til að bæta og efla hag almennings og atvinnuveganna og fríverslun og því er ástæða til að fagna þeim nýja samningi sem hér er til umræðu í dag. Eins og hér hefur verið fjallað um gerir samningurinn ráð fyrir gagnkvæmum viðskiptum með blóm og plöntur. En í honum felast líka ýmsar aðrar nýjungar svo sem tollfrjálsir kvótar fyrir ýmsar landbúnaðarvörur og niðurfelling tolla á ýmsum vöruflokkum, eins og frosnu grænmeti, ávaxtasafa og fleiru.

Það er augljóst að þessar breytingar eru mjög til hagsbóta fyrir neytendur með lægra vöruverði. Það er einnig ástæða til að undirstrika að í þessum breytingum felast sóknartækifæri fyrir íslenskan landbúnað. Viðskiptahindranir hafa hingað til hamlað útflutningi margra þeirra vöruflokka sem um er að ræða á Evrópumarkað og jafnframt hugsanlegum erlendum fjárfestingum í þessum geira. Við höfum einfaldlega ekki haft markaðsaðgang fyrir þessa vöru á Evrópumarkaði. Í þessum breytingum felast tækifæri fyrir vöxt og nýjungar hér á landi.

Það er líka ástæða til að hnykkja á því sem kom fram í máli hæstv. ráðherra að samningur þessi leiðir af 19. gr. EES-samningsins sem kveður á um endurskoðun í þágu viðskiptafrelsis á fyrirkomulagi mála í þessum flokki. Þar er kveðið á um endurskoðun á tveggja ára fresti. Það væri í raun og veru fullkomin ástæða til að ræða það hvers vegna það gerist fyrst nú en ekki fyrr. Þvert á móti er ástæða til að bretta upp ermar í þessum efnum í þágu neytenda og atvinnuveganna.

Samningar um fríverslun byggjast að meginstefnu ávallt á gagnkvæmni sem er auðvitað upp á teningnum í þeim samningi sem hér er um að ræða. Hv. málshefjandi hefur ekki leitt nein rök að því hvers vegna ekki ættu að gilda sams konar reglur um þær vörur sem hér er um að ræða og aðrar vörur sem Íslendingar eiga viðskipti með. Hvers vegna ættu að gilda annars konar reglur um blóm og plöntur en gilda um aðrar vörur sem hér eru framleiddar? (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Tollar og viðskiptahindranir hafa sem betur fer verið á undanhaldi. (Forseti hringir.) Hvert skref sem hefur verið stigið gegn þeim hefur verið til heilla fyrir land og þjóð.