132. löggjafarþing — 110. fundur,  26. apr. 2006.

Staða garðplöntuframleiðenda.

[15:47]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég á sæti í landbúnaðarnefnd og er þar áheyrnarfulltrúi. Við sátum þar á fundi um daginn, í vaxandi forundran þegar við fengum upplýsingar um þetta mál, hvernig það allt saman liggur fyrir.

Hvers vegna skyldu þessar vörur fá einhverja sérmeðferð? spurði hv. þingmaður sem talaði hér á undan mér, í mikilli undrun. Mér finnst þetta í raun og veru ekkert flókið mál. Í mínum huga snýst þetta öðrum þræði um byggðamál, byggðasjónarmið. Við eigum ekkert að skammast okkur fyrir það, Íslendingar á Íslandi, að við viljum verja íslenska atvinnuvegi. Verja rétt Íslendinga til að nýta íslenskar náttúruauðlindir sjálfum sér til hagsbóta. Þjóðinni til hagsbóta. Við eigum ekkert að skammast okkur fyrir það.

Mér finnst það með hreinum ólíkindum að þingmaður, stjórnmálamaður, sem á góðum stundum kallar sig ráðherra Suðurlands, lætur mynda sig í fullri stærð og prenta auglýsingar með þeirri mynd með titlinum: ráðherra Suðurlands, skuli standa að þessum gerningi. Þetta er bein aðför að atvinnuhagsmunum í Suðurkjördæmi. Hér kemur fram í gögnum að við erum að tala um í kringum 150 stöðugildi á landsbyggðinni. Hæstv. ráðherra sagðist öðrum þræði vera að hugsa um byggðasjónarmið. Hvað sagði hann nú aftur? Það var: Að standa vörð um atvinnu og búsetu í byggðum landsins.

Við höfum fast í hendi okkar, hæstv. ráðherra, 150–200 stöðugildi en hæstv. ráðherra vill fara í einhvers konar fjárhættuspil með þessar stöður og fórna þeim fyrir einhvern vafasaman ávinning í útflutningi á hrossum, sméri og lambakjöti. Þetta er bara algjör þvæla. Til hvers erum við að taka svona áhættu með störf fólks í landinu? Til hvers erum við að því? Hæstv. ráðherra ætti að svara því þegar hann kemur hér upp og talar öðru sinni í þessari umræðu.