132. löggjafarþing — 110. fundur,  26. apr. 2006.

Staða garðplöntuframleiðenda.

[15:52]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég hef komið á afar margar garðplöntustöðvar og alltaf þegar ég kem inn á þær fyllist ég af stolti, vegna hugkvæmni, framkvæmdagleði og dugnaði eigenda þeirra. Nú er þeim ógnað. Þeir hafa beðið um stuðning í formi raforkulækkunar og annan stuðning en ekki fengið neitt. Eina sem kemst að hjá ríkisstjórninni er ál, ál og aftur ál með hækkuðu raforkuverði og það er hin hugmyndasnauða ríkisstjórnarstefna á kostnað þess sprotaiðnaðar sem garðplöntuframleiðsla er.

Þetta mál er einfalt. Hér er ekki verið að jafna samkeppni. Hér er verið að mismuna. Garðplöntuframleiðendur fá ekki að sitja við sama borð. Það er aðalatriðið. Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að hygla einni starfsstétt á kostnað annarrar. Það heitir mismunun. Hún stenst ekki. Það liggur á borðinu að 65. gr. stjórnarskrárinnar, jafnræðisreglan er undir. Það er helgasta skylda okkar, þar með talið hæstv. ráðherra, að standa vörð um hana. Af þessari reglu leiðir, að allan minnsta vafa í þessu máli, vafa um mismunun, ber að túlka stjórnarskránni í hag. Þennan vafa ber að túlka einstaklingum í hag og þennan vafa ber að túlka garðplöntuframleiðendum í hag.

Hér er rökstuddur vafi á ferð. Það hefur verið ítarlega rökstutt í bréfi lögmanns Félags garðplöntuframleiðenda, og hæstv. ráðherra ber að íhuga þennan vafa, draga tillögur sínar til baka og endurskoða afstöðu sína. Það er ekki hægt að mismuna einum framleiðanda innan landbúnaðarins á kostnað annars. Það er grundvallaratriði.