132. löggjafarþing — 110. fundur,  26. apr. 2006.

Staða garðplöntuframleiðenda.

[15:56]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta var ágætisræða hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni almennt um stöðuna varðandi landbúnaðinn. En það sem hefur komið mér á óvart hér í umræðunni í dag er að hæstv. ráðherra svarar ekki þeim spurningum sem lagðar eru fram. Þær hafa samt legið fyrir býsna lengi. Það eru engin svör við því af hverju var ekki haft samráð. Engin svör við því. Engin svör við því hvers vegna garðplöntuframleiðslunni er fórnað algerlega fyrir innflutning, t.d. af 15 tonnum af rjúpu, hvernig sem það er nú fundið út að við þurfum endilega á 15 tonnum af rjúpu að halda á næsta ári. Eða er gagnkvæmur flutningur á 15 tonnum af pylsum? 15 tonn inn og 15 tonn út af pylsum?

Hvers vegna var garðplöntuframleiðslunni fórnað fyrir þetta? Hvers vegna? Það eru engin svör við því. Engin svör við því af hverju var ekki haft samráð. Ekki nokkur svör. Og hv. þm. Ingvi Hrafn Óskarsson sagði að við gætum kannski sótt fram, bara farið inn á blómamarkaði í Hollandi, Frakklandi og Þýskalandi — hugsið ykkur — með stjúpuna okkar.

Í hvers konar veruleika búið þið? Það þarf ekki að segja mér að hv. þingmaður geri mikið af því að setja niður sumarblóm eða kaupa þau yfirleitt. Það er þannig að þessi blóm eru öll vorblóm á þessum stöðum og eru komin á útsölu þegar þau verða sett í sölu hér og framleiðslan er komin á sinn enda hér. Við þurfum á því að halda að þessi starfsstétt fái að halda stöðu sinni, stöðu sem hún hefur fengið án allra ríkisstyrkja, alltaf.

Er hún að gjalda þess núna? Er hún að gjalda þess að hafa ekki, eins og hæstv. ráðherra sagði, sótt um aðstoð? Áttu garðplöntuframleiðendur að liggja á hnjánum undanfarin ár og biðja um aðstoð í staðinn fyrir að berjast og standa í lappirnar? Nei. Þá er þeim bara fórnað. Þá gleymdist að þeir eru til. [Klapp frá þingpöllum.]