132. löggjafarþing — 111. fundur,  28. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[10:46]
Hlusta

Frsm. meiri hluta félmn. (Dagný Jónsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta atriði var töluvert mikið rætt í hv. félagsmálanefnd og okkur þótti mjög mikilvægt að setja þetta inn í nefndarálitið. Þarna er settur sá fyrirvari að stjórnvöld geti gripið til aðgerða ef, eins og það er orðað, röskun verður á vinnumarkaði. Það er verið að tala um það að stjórnvöld verði að meta slíkt ástand eða yfirvofandi ástand og hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins. Það er þá verið að tala um það að ef svo stór hópur útlendinga kemur hingað til lands að við verðum engan veginn í stakk búin til að taka á móti þeim. Einnig er verið að hugsa um atvinnuástandið í landinu o.s.frv. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við séum með þessa heimild í lögunum og það má líka geta þess að þetta eru rýmri heimildir en í Evrópusamningnum þannig að ég tel mjög gott að stjórnvöld hafi þennan varnagla. Við gerum okkur nefnilega ekki fullkomlega grein fyrir hversu margir muni nýta sér þessa rýmkun og koma hingað til lands. Það er alveg ljóst að vinnumarkaðurinn verður að vera í stakk búinn til þess að taka á móti þessu fólki og stjórnvöld.