132. löggjafarþing — 111. fundur,  28. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[10:47]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo að ég er eiginlega alveg sammála því sem þarna kemur fram. Mér fannst hins vegar nauðsynlegt að talsmaður nefndarinnar útskýrði þetta betur hér. Það er sem sagt atvinnuleysi, mikið atvinnuleysi, eða stórkostlega mikill innflutningur á erlendu vinnuafli sem gæti gert þetta að verkum. Það er mikilvægt að þetta sé komið fram.

Þarna eru eiginlega komin fram axlabönd og belti frá nefndinni hvað þetta varðar. Þetta sýnir kannski líka hversu — ja, má draga athygli að því hversu seint þetta frumvarp kemur fram. Við erum að ræða það hér í kapp við tímann og eigum að klára þetta núna fyrir 1. maí. Svo er með ýmis önnur mál sem ég ætla ekki að gera að umræðuefni hér.

Annað atriði sem hv. þm. Dagný Jónsdóttir setti fram er samkomulag sem nefndin gerði við hæstv. félagsmálaráðherra um að skipa starfshóp þar sem fulltrúar stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins eiga sæti. Mig langar að spyrja: Kom sú hugmynd ekki fram í nefndinni að fulltrúar þeirra erlendu aðila sem koma hér inn, fulltrúar hins erlenda vinnuafls, ættu sæti í þessum starfshópi þar sem þeir gætu miðlað því sem að þeim snýr og því sem þeir mæta hér?