132. löggjafarþing — 111. fundur,  28. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[10:49]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég skrifa undir það nefndarálit sem hér hefur verið mælt fyrir með fyrirvara og það gera einnig hv. þingmenn Jóhann Ársælsson og Valdimar L. Friðriksson og Ögmundur Jónasson, sem er áheyrnarfulltrúi, er samþykkur álitinu með fyrirvara einnig.

Þessi fyrirvari lýtur m.a. að breytingartillögu sem við flytjum á þskj. 1209, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þar er í stuttu máli, frú forseti, lagt til að við nýtum okkur aðlögunina áfram í stuttan tíma eða fram til næstu áramóta en hún taki ekki gildi 1. maí 2006. Ástæða þess að við teljum mikilvægt að nýta þessa aðlögun áfram, framlengja hana um nokkra mánuði, er sú að tími gefist þá til undirbúnings og nauðsynlegrar stefnumótunar í málefnum innflytjenda. Ekki er síður mikilvægt að við fáum niðurstöðu úr þeirri nefnd sem félagsmálaráðherra ætlar að skipa í kjölfar þessarar lagasetningar sem hefur það markmið að treysta betur regluverk og framkvæmd til að tryggja að ekki verði gengið gegn grundvallarréttindum launafólks. Um það er ágreiningur milli aðila vinnumarkaðarins hvernig að því skuli staðið. ASÍ hefur sett fram ákveðnar tillögur þar að lútandi til að styrkja vinnumarkaðinn en um það er greinilegur ágreiningur milli Samtaka atvinnulífsins og ASÍ. Sá ágreiningur kom fram á fundi nefndarinnar og við höfum talið mikilvægt að sjá hver niðurstaðan væri úr því áður en opnað yrði fyrir frjálsa för fólks til landsins.

Ég vil koma nokkuð nánar inn á þetta en ég vil í upphafi, frú forseti, gagnrýna enn og einu sinni, eins og ég gerði við 1. umr., hve stuttan tíma þing og umsagnaraðilar hafa haft til þess að fjalla um þetta mál. Það er beinlínis vanvirða við þessa aðila að ætla sér að afgreiða þetta stóra mál á örfáum dögum en það var lagt fyrir þingið, ef ég man rétt, 10. apríl og tekið hér fyrir eftir páska og við höfum haft tvo, þrjá daga til þess að fjalla um þetta stóra mál sem á eru margar hliðar.

Við í stjórnarandstöðunni fögnum þó þeim áherslum sem fram koma í nefndarálitinu sem ég ætla aðeins að fara nánar inn á í mínu máli. Það var ekki síst það og vilji formannsins til að koma til móts við okkur í þessu efni sem varð til þess að við treystum okkur til að skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara og flytja þessa breytingartillögu.

Nú er það svo að við sem skrifum undir nefndarálitið með fyrirvara erum vissulega og sannarlega fylgjandi því að hér blómstri fjölmenningarlegt samfélag og að við opnum fyrir frjálsa för fólks til þessa lands. En okkur er mjög í mun að vel sé tekið á móti því fólki og þess vegna leggjum við mikið upp úr þeirri stefnumótun sem á að fara fram í málefnum innflytjenda og ekki síður því starfi sem á að fara fram í nefnd félagsmálaráðherra.

Alþýðusamband Íslands hefur í aðdraganda þessarar lagasetningar sett fram minnisblað sem var lagt fyrir miðstjórn ASÍ í febrúarmánuði síðastliðnum. Þar er staða þessara mála rakin og þeir kostir sem eru í stöðunni. Eins og þetta er sett fram hjá ASÍ eru kostirnir aðeins þrír. Ef ekkert er gert í þessu máli mun aðlögunarfresturinn falla niður 1. maí og annað verða óbreytt, þ.e. sameiginlegi vinnumarkaðurinn kemur að fullu til framkvæmda á þeim grundvelli sem hefur verið lagt til. Annar kosturinn var að ákveða að aðlögunarfresturinn yrði framlengdur í allt að þrjú ár í viðbót, þ.e. til 2009, en heimild er til þess að framlengja hann enn um tvö ár frá 2009 eða til 2011. Þriðji kosturinn sem ASÍ setti fram var að framlengja ekki frestinn en treysta regluverk og framkvæmd þannig að tryggt sé eins og kostur er að útlendingar á íslenskum vinnumarkaði, hvort sem þeir starfa á vegum erlendra starfsmannaleigna eða annarra þjónustufyrirtækja eða eru á beinum ráðningarsamningi hjá fyrirtæki hér á landi, njóti þeirra kjara og réttinda sem hér gilda og þeim ber. Þannig verði reynt að tryggja að vera útlendinga á vinnumarkaði um skemmri eða lengri tíma raski ekki kjörum eða samskiptum á vinnumarkaði.

Í minnisblaði ASÍ til miðstjórnarinnar segir, með leyfi forseta:

„Rétt er að hafa í huga að það er ekkert sem segir að ekki megi blanda saman leiðum 2 og 3, þ.e. að nýta frestsheimildina með einhverjum hætti en jafnframt treysta löggjöf og regluverkið almennt og bæta framkvæmdina til að ná þeim markmiðum sem verkalýðshreyfingin hefur sett fram. Reyndar má segja að frestunin án þess að tíminn sé notaður til að treysta regluverkið og framkvæmdina hafi takmarkaða þýðingu, það gildir bæði um frjálsa för en ekki síður og kannski enn frekar um það sem snýr að þjónustufyrirtækjum og starfsmönnum þeirra og þetta er klárlega sú leið sem alþýðusambandið í Noregi vill fara og sama gildir um Danina.“

Áfram segir hér, með leyfi forseta:

„Þegar metnir eru þeir kostir sem nú eru í stöðunni er mikilvægt að hafa í huga að sátt sem nú virðist hafa náðst varðandi væntanlega þjónustuskipun á vettvangi ESB og rutt hefur úr vegi ýmsum hindrunum sem taldar voru á því að setja skilyrði varðandi skráningu og upplýsingagjöf og skyldu fyrirtækja sem bjóða fram þjónustu sína á Evrópska efnahagssvæðinu, þar með talið starfsmenn sem hluta af þeim pakka.“

Þær tillögur sem voru lagðar fyrir miðstjórnina voru þær að danska leiðin yrði farin til að mæta þeim sjónarmiðum að ekki megi þrengja svo að möguleikum fyrirtækja hér á landi á að ráða einstaklinga frá nýjum aðildarríkjum beint að þau leiðist út í að nýta sér frekar þjónustu starfsmannaleigna eða annarra þjónustufyrirtækja, þ.e. að opnað verði fyrir frjálsa för fólks með ákveðnum skilyrðum sem fram koma í þessu frumvarpi, m.a. að það þurfi að leggja fram ráðningarsamninga þess fólks sem hingað kemur í atvinnuleit.

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Rökin fyrir þessari afstöðu eru að íslenskur vinnumarkaður sé ekki enn tilbúinn til að taka við frjálsri för launafólks frá nýju aðildarríkjunum og að mikilvægt sé að treysta frekar innviði vinnumarkaðarins og þær reglur og þau kjör sem þar gilda. Þá er mikilvægt að með þessari aðferð er helst mögulegt að fylgjast með fjölda þeirra sem koma hingað til starfa hjá fyrirtækjum sem hér hafa staðfestu og hvaða kjörum þeir eru á. Reynsla Alþýðusambandsins og aðildarsamtaka þess hefur glögglega sýnt fram á að brot gagnvart erlendu starfsfólki eru mest þar sem upplýsingar eru minnstar og þar er jafnframt erfiðast að gæta hagsmuna þessara aðila.“

Virðulegi forseti. Þetta er sú leið sem varð samkomulag um milli aðila vinnumarkaðarins að fara. Alþýðusambandið hefur jafnframt sett fram ýmsar tillögur sem lúta að því að styrkja vinnumarkaðinn sem ég ætla aðeins að geta hér, og væntanlega verður þá fjallað um þær í nefndinni sem hæstv. félagsmálaráðherra setur á laggirnar í framhaldi af þessari lögfestingu. Lagt er til að sett verði löggjöf um skráningarskyldu, upplýsingaskyldu, eftirlit og aðhald með þjónustufyrirtækjum. Gerð er krafa um ábyrgð notendafyrirtækja og lagt til að úrræði aðila vinnumarkaðarins til að fá upplýsingar um raunveruleg laun og starfskjör erlends verkafólks verði treyst enn frekar. Lagt er til að skipulagt samstarf stjórnvaldsaðila og aðila vinnumarkaðarins verði formbundið og treyst með það að markmiði að samræma upplýsingagjöf og aðgerðir og einnig er tillaga sem lýtur að því að upplýsingagjöf verði aukin og aðstoð við erlent verkafólk sem hér starfar og að leitað verði leiða til að koma í veg fyrir og draga eins og kostur er úr hættunni á gerviverktökum, þar með talið af hálfu útlendinga sem hingað koma til starfa.

Annað sem ASÍ leggur til er að kannaðir verði kostir þess að ILO-samþykkt nr. 94, um samninga á vegum opinberra aðila, verði fullgilt hér á landi eða meginreglum hennar a.m.k. hrundið í framkvæmd. Nokkur fleiri atriði hefur ASÍ nefnt þannig að mikið verk er fyrir höndum í þessari nefnd að treysta betur regluverk og framkvæmd til að tryggja að ekki verði gengið á grundvallarrétt launafólks. Það eru þessi atriði sem við vildum fá niðurstöðu í áður en þetta frumvarp yrði lögfest en um það náðist ekki samstaða í félagsmálanefnd og þess vegna er sú niðurstaða sem hér er mælt fyrir.

Ég nefndi að það væri tvennt í nefndarálitinu sem við legðum mikið upp úr.

Það er eins og hér segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur á það áherslu að mótuð verði stefna í málefnum innflytjenda og að gerð verði framkvæmdaáætlun á grundvelli þeirrar stefnu. Áætlunin verði jafnframt kynnt félagsmálanefnd fyrir 1. október 2006.“s

Þetta teljum við afar mikilvægt. Eins og kom fram í máli formanns nefndarinnar hefur verið sett á laggirnar innflytjendaráð sem ég bind miklar vonir við að vinni fljótt og vel að þessu máli. Þar eru ýmsar hugmyndir á borðinu sem greinilegt er að innflytjendaráð mun vinna að.

Í skýrslu sem lögð var fram fyrir nokkrum mánuðum, nefndar um aðlögunarmál útlendinga á Íslandi, er að finna ýmsar tillögur sem ég vænti að innflytjendaráð skoði ítarlega í þeirri stefnumótun sem þar fer væntanlega fram. Meginniðurstaða nefndarinnar var að brýn þörf væri á mótun heildstæðrar stefnu stjórnvalda í málefnum innflytjenda. Eins og segir hér, með leyfi forseta:

„Með því að búa til þennan farveg innan stjórnsýslunnar sem stofnun innflytjendaráðs er telur nefndin að forsendur slíkrar stefnumótunar verði fyrir hendi. Meginverkefni innflytjendaráðs verði að taka á helstu atriðum er snerta aðlögun útlendinga að íslensku samfélagi í víðu samhengi.

Innflytjendaráð á að leita eftir breiðri samstöðu ólíkra hagsmunaaðila sem málið snertir. Þar á meðal eru sveitarfélög, aðilar vinnumarkaðar, frjáls félagasamtök og félög útlendinga á Íslandi.“

Ég tel ákaflega mikilvægt að innflytjendaráð leiti eftir breiðri samstöðu þessara aðila. Með slíkum vinnubrögðum er von til að farsæl niðurstaða náist í þessu máli sem allir geti vel við unað.

Fjögur ráðuneyti, félagsmála-, menntamála-, dómsmála-, heilbrigðisráðuneyti, og síðan Samband íslenskra sveitarfélaga eiga aðild eiga að innflytjendaráði. Hugmyndir sem fram kom í skýrslunni, sem væntanlega verða á borði innflytjendaráðs, voru að bæta þyrfti mjög tölfræðilegar upplýsingar varðandi fólk af erlendum uppruna, að teknu tilliti til laga um persónufrelsi og meðferð persónuupplýsinga. Síðan var þar hugmynd um að innflytjendaráð skyldi í samvinnu við Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun tryggja að sérhverjum þeim sem hér fær atvinnu- og dvalarleyfi bjóðist leiðsögn um íslenskt samfélag. Áhersla skuli lögð á að viðkomandi þekki réttindi sín og skyldur með það að markmiði að hann geti tekið virkan þátt í samfélaginu. Í skýrslunni er síðan rætt um miðlun upplýsinga, með leyfi forseta:

„Innflytjendaráð skal leitast við að tryggja sem best miðlun upplýsinga til útlendinga á Íslandi. Byggt verði á þeirri vinnu sem nú þegar liggur fyrir hjá ýmsum aðilum og leitast við að efla hana og samræma.“

Einnig er tekið á túlkaþjónustu og lagt til að gerð verði áætlun um túlkaþjónustu sem nái til landsins alls og rætt um þjónustu við sveitarfélög. Hér segir, með leyfi forseta:

„Innflytjendaráð skal markvisst kynna sveitarfélögunum þarfir og aðstæður innflytjenda. Innflytjendaráð skal gera tillögur um hlutverk sveitarfélaga í aðlögunarmálum. Áhersla skal lögð á heildræna þjónustu við fjölskyldur og hvetja þau til að tryggja að innflytjendum séu kynnt réttindi sín og skyldur í samfélaginu og hvatt er til heildrænnar þjónustu við fjölskyldur.“

Það er auðvitað afar mikilvægt að þeir innflytjendur sem hingað koma þekki réttindi sín. Það er út af fyrir sig áhyggjuefni að þeir sem koma frá þjóðum í frjálsri för innan Evrópska efnahagssvæðisins þurfa ekki eins og aðrir útlendingar sem hingað leita að læra íslensku. Innflytjendaráð hlýtur að taka það til sérstakrar skoðunar hvernig hægt er að bjóða þeim hópum sem hingað möguleika á að læra tungumál okkar. Það er grundvallaratriði, ekki síst til að tryggja að það fólk þekki réttindi sín.

En það er sem sagt unnið að framkvæmdaáætlun fyrir innflytjendaráð og drög í vinnslu eins og fram kemur á minnisblaði sem nefndin fékk frá ráðinu. Við leggjum áherslu á að þegar sú stefnumótun liggur fyrir þá verði hún kynnt félagsmálanefnd. Ég ætla, virðulegi forseti, ekki að hafa fleiri orð um þetta þótt full ástæða væri til. Enda heyrist það kannski á mæli mínu að ég er ekki vel í stakk búin til að halda langa ræðu.

Ég vil nefna nokkrar umsagnir sem komu til félagsmálanefndar út af þessu máli. Það verður að segjast að í ýmsum af þeim umsögnum er kallað eftir því að þessi aðlögunarfrestur verði nýttur og raunar lengri aðlögunarfrestur en við leggjum til í breytingartillögu okkar. Ég ætla aðeins að fá að hlaupa á því í lokin, virðulegi forseti. Hér segir í umsögn frá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga, með leyfi forseta:

„Við teljum að fresta beri staðfestingu á samþykktum um frjálsa för launafólks frá nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins í það minnsta í eitt ár, því okkur er kunnugt um smærri atvinnurekendur sem bíða eftir því að okkar afskiptum af atvinnuleyfum ljúki.“

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Við Íslendingar höfum haft nokkur ár til að búa okkur undir staðfestingu á frjálsri för verkafólks frá þessum nýju aðildarríkjum EES en ekkert gert til að vera viðbúin nýjum viðhorfum. Því er árs frestur á staðfestingu mjög brýnn. En skilyrðið yrði að vera að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld nýttu vel frestinn til að setja sér reglur sem kæmu í veg fyrir misnotkun á þessu verkafólki frá fátækum ríkjum, því allir hljóta að vera sammála um að ekki verði níðst á því af óprúttnum aðilum.“

Það er hægt að taka undir það sem hér kemur fram um frestinn, sem við höfum í raun haft frá árinu 2004. Allir vissu að 1. maí 2006 þyrfti að taka ákvörðun um frekari aðlögun. Sá dagur er nú kominn án þess að stjórnvöld hafi gert nægilega mikið í málinu til að menn hafi heildarmyndina fyrir framan sig, þ.e. stefnumótun í málefnum innflytjenda og niðurstöður af starfi nefndar sem er að vinna að frekari regluverki og lögum til að treysta og styrkja vinnumarkaðinn.

Í umsögn BSRB kemur fram nokkuð athyglisvert, með leyfi forseta:

„Í öðru lagi þarf að tryggja að opnun vinnumarkaðarins valdi ekki verulegri röskun. Rannsóknir sýna að 7–9% ríkisborgara Eistlands, Lettlands og Litháens auk Póllands vilja nýta sér frjálsa för launafólks næstu árin og halda á nýjar slóðir í atvinnuleit. Sömu rannsóknir gera ráð fyrir að einungis 1% ríkisborgara Slóvakíu, Slóveníu, Tékklands og Ungverjalands muni sækja atvinnu í öðrum löndum.“

Engin rannsókn eða athugun hefur verið gerð á því hvers megi vænta við þessa opnun, hvort fólk frá þessum aðildarríkjum muni í verulegum mæli nýta sér þann rétt. En það kom fram í starfi nefndarinnar að 80% innflytjenda eru komnir frá þessum nýju aðildarríkjum. Ég hygg að það megi gera ráð fyrir að enn verði veruleg fjölgun sem vissulega væri bara ánægjulegt, eins og ég hef sagt, að fjölga í okkar þjóðfélagi. En forsenda þess er að við getum tekið vel á móti fólki.

Það kom t.d. fram hjá Útlendingastofnun að árið 2004 voru gefin út 6.042 dvalarleyfi en á árinu 2005 9.331, þannig að dvalarleyfum hefur fjölgað milli ára um 54%, sem er mikið. Langmest fjölgun hefur verið vegna útgáfu á atvinnuleyfum. Það mætti kannski nefna að í umfjöllun nefndarinnar kom fram að frá því að Bretar opnuðu fyrir frjálsa för árið 2004 hefur innflytjendum þar fjölgað um 300 þús.

BSRB ítrekar hið sama og Alþýðusamband Íslands, að vinnumarkaðurinn þurfi að vera í stakk búinn til að taka á móti þessu fólki, að girt verði fyrir undirboð á vinnumarkaðnum og að þetta fólk njóti sömu réttinda og aðrir hér. Eins og hér segir, með leyfi forseta:

„Ströng eftirfylgni við eftirlit og ákveðnar reglur hvað það varðar er forsenda þess að vinnumarkaðurinn verði opnaður eins og hér er lagt til. Að öðrum kosti væri æskilegra að fresta ákvörðun þar að lútandi.“

Starfsgreinafélag Austurlands leggur til að fresta gildistöku um frjálsa för í að minnsta kosti þrjú ár til viðbótar. Þar hefur ársfundur trúnaðarmanna sett fram áskorun til stjórnvalda um að fresta gildistökunni um frjálst flæði launafólks.

Verkalýðsfélag Akraness sendir mjög ítarlega umsögn þar sem lagður er til sami frestur. Þeir segja, með leyfi forseta:

„Ljóst er að verulegur fjöldi fólks frá þeim löndum sem frestunin náði til hefur starfað hér á landi á grundvelli atvinnuleyfa eða fyrir milligöngu starfsmannaleigna. Engin úttekt eða rannsókn hefur farið fram á því hvaða áhrif þetta hefur haft á íslenska vinnumarkað.“

Ég hef einmitt sagt að nauðsynlegt væri að það lægi fyrir en stjórnvöld hafa verið sofandi og ekki gert úttekt og rannsókn á áhrifunum á íslenskan vinnumarkað. Síðan heldur áfram hér, með leyfi forseta:

„Fyrst við ákvörðun við niðurfellingu frestunarinnar er ákveðið að skipa starfshóp með aðilum vinnumarkaðarins til að fara yfir málefni útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Það er hins vegar reynsla Verkalýðsfélags Akraness að mikill meiri hluti þess fólks sem kemur hér til starfa frá láglaunasvæðum vinni á lágmarkslaunum sem eðlilega leiðir af sér pressu frá atvinnurekendum um lækkun þeirra markaðslauna sem almennt gilda á íslenskum vinnumarkaði og verkalýðshreyfingin hefur í áratugi verið að berjast fyrir.“

Í þessum orðum endurspeglast það sem fram kom í störfum nefndarinnar þann stutta tíma sem hún hafði þetta mál til meðferðar. Það endurspeglast líka í fleiri umsögnum, þ.e. áhyggjur af því að þetta geti haft áhrif til lækkunar á launum og að erfiðara verði að hífa upp lágmarkslaunin. Við því má búast að verulegur hluti fólksins sem hingað leitar sé ófaglært fólk á lægstu launum. Þá verður erfiðara að hífa upp lægstu launin eða að hífa þau sem næst markaðslaunum, eins og að hefur verið unnið. Þetta er út af fyrir sig áhyggjuefni sem menn þurfa að skoða, ekki síst í nefndinni sem á að skoða frekari styrkingu á vinnumarkaðnum.

Hér segir Verkalýðsfélag Akraness enn fremur, með leyfi forseta:

„Vegna þessa telur Verkalýðsfélag Akraness íslenskan vinnumarkað alls ekki tilbúinn nú til að taka við auknu flæði launafólks. Eðlilegt sé að gildistöku reglnanna sé frestað þar til úttekt hefur verið gerð á því hvaða áhrif aukið framboð erlends launafólks frá láglaunasvæðum hefur og fyrir liggi mótaðar tillögur, m.a. frá aðilum vinnumarkaðarins, um málefni útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Þar er jafnframt vísað til ályktana frá fjölmörgum verkalýðsfélögum og heildarsamtökum þeirra þar sem frumvarpi þessu er mótmælt.“

Þetta er auðvitað kjarninn í því sem við í stjórnarandstöðunni höfum sagt, hv. þm. Jóhann Ársælsson, Valdimar Leó Friðriksson og sú sem hér stendur auk áheyrnarfulltrúans Ögmundar Jónassonar. Við teljum að átt hefði að nýta að minnsta kosti árið út svo að fyrir liggi mótaðar reglur, m.a. frá aðilum vinnumarkaðarins, um málefni útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Það er auðvitað kjarninn í þeirri frestun sem við leggjum til.

Í umsögn Samiðnar segir, með leyfi forseta:

„Æskilegt hefði verið að samhliða aukinni opnun vinnumarkaðarins hefðu fylgt aðgerðir til að hefta aukna einstaklingsverktöku erlendra starfsmanna en hún er vaxandi vandamál. Í öðru lagi hefði þurft að lögbinda ábyrgð notendafyrirtækja í þeim tilfellum þegar um starfsmannaleigur er að ræða.“

Virðulegi forseti. Það er auðvitað ástæða til að taka undir þetta og hefði verið æskilegt að frekari reynsla væri komin af lögum sem við settum nýverið um starfsmannaleigur. Þá var mjög mikið kallað eftir að lögbinda ábyrgð notendafyrirtækja og það verður vafalaust ofarlega á borðinu hjá aðilum vinnumarkaðarins í nefndarstarfinu sem ég hef ítrekað komið inn á.

Í umsögn frá Verkalýðsfélagi Húsavíkur segir, með leyfi forseta:

„Verði þessi breyting að lögum án nauðsynlegra undirbúningsaðgerða og aðlögunar er hætt við að hún valdi því að atvinnuleysi kunni að verða viðvarandi vandamál eins og víða í Evrópu. Framboð af fólki sem er tilbúið að vinna á lægri launum en Íslendingar verði svo mikið. Nú þegar hefur Verkalýðsfélag Húsavíkur fengið inn á borð til sín dæmi, þar sem erlent verkafólk frá einu af þessum aðildarríkjum sem tilgreint eru í frumvarpinu er tilbúið að koma til starfa í ferðaþjónustu í sumar gegn því að fá ráðningarsamning og 300 kr. í dagvinnulaun svo það komist inn í landið.“

Það er auðvitað athyglisvert sem hér er sett fram, að þegar liggi fyrir á borði Verkalýðsfélags Húsavíkur dæmi um að erlent verkafólk frá einu af þessum aðildarríkjum sem tilgreind eru sé tilbúið að koma til starfa í ferðaþjónustu í sumar gegn því að fá ráðningarsamning og 300 kr. í dagvinnulaun. Þegar dagvinnulaunin eru meira en helmingi hærri, eða 670 kr.

Virðulegi forseti. Ég get nú farið að ljúka máli mínu. Ég enda á umsögn Bandalags háskólamanna. Þeir segja hér, með leyfi forseta:

„BHM hefði kosið að sú heimild hefði verið nýtt a.m.k. um einhvern tíma í ljósi þeirra vandkvæða sem upp hafa komið.“

Svo segja þeir það, með leyfi forseta, sem ástæða er til að halda til haga í þessari umræðu:

„Með frjálsri för launamanna frá nýjum EES-ríkjum munu koma upp margvísleg álitaefni hvað varðar gæði menntunar og kunnáttu ríkisborgara frá þessum löndum. Ríkisborgarar þeirra landa geta hafa öðlast réttindi háskólamanna á grundvelli menntunar sem er að verulegu leyti frábrugðin og gerir minni kröfur en sú menntun sem veitt er hér á landi. Við því þarf að bregðast m.a. með samvinnu við háskóla um viðbótarmenntun.“

Nefndinni gafst enginn tími til að fara ofan í þennan þátt málsins sem er vissulega mikilvægur þegar um er að ræða að fólk flyst hingað til lands og fær hér atvinnu en er kannski með minni réttindi í ýmsum greinum en Íslendingar. Hefði ég gjarnan viljað skoða betur reynsluna af því hvernig við því hefur verið brugðist. Mér skilst að til séu ákveðnar reglur um þetta mál. En okkur gafst enginn tími til að skoða reynsluna af því eða hvernig þær hefðu reynst.

Virðulegi forseti. Þá held ég að ég ljúki máli mínu og legg áherslu á þá breytingartillögu sem við höfum hér flutt, þ.e. við leggjum til framlengingu á þessari aðlögun um nokkra mánuði, eða til næstu áramóta, fyrst og fremst til að við getum undirbúið okkur betur fyrir komu þessa fólks vegna þess að við sem leggjum fram þessa breytingartillögu viljum að við Íslendingar leggjum metnað okkar í taka vel á móti þessu fólki og undirbúum okkur sem best fyrir þá aðlögun sem þarf að vera í þessu sambandi. Við teljum að skynsamlegra hefði verið að bíða eftir því að mótuð hefði verið stefna í málefnum innflytjenda, að gerð hefði verið framkvæmdaáætlun á grundvelli þeirrar stefnu. Það er mikilvægt, eins og ég sagði, sem fram kemur í áliti félagsmálanefndar, að hún á að liggja fyrir 1. október og á að vera kynnt félagsmálanefnd. Eins er lögð áhersla á það í nefndarálitinu að starfshópur á vegum félagsmálaráðherra sem skipaður er fulltrúum stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins skili, með leyfi forseta: „áliti og tillögum fyrir 1. nóvember nk. og er honum ætlað að koma með tillögur um hvernig unnt sé að tryggja að útlendingar dvelji og starfi hér á landi með lögmætum hætti og að áreiðanlegar upplýsingar verði til um útlendinga sem eru að störfum hér. Meðal annars verður skoðað hvort ástæða sé til að styrkja það vinnumarkaðskerfi sem fyrir er til að tryggja að erlent starfsfólk njóti þeirra réttinda og kjara sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. Jafnframt skal starfshópurinn kanna hvaða leiðir séu færar til að auka upplýsingagjöf og aðstoð við erlent starfsfólk á íslenskum vinnumarkaði. Tilkynning um hlutverk starfshópsins er fylgiskjal með nefndaráliti þessu.“

Loks segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur áherslu á að starfshópurinn skili á tilsettum tíma og bindur vonir við að starf hans styrki vinnumarkaðinn almennt þannig að grundvallarréttindi launafólks verði betur varin.“

Þetta tel ég mjög mikilvægt að fá inn í þetta nefndarálit. Einnig er ástæða til að vísa til þess að þegar þetta hefur verið lögfest þá verður auðvitað ekki aftur snúið. Við verðum að gera eins vel og við getum miðað við þá stöðu sem nú er uppi, nýta vel næstu mánuði á þessu ári í þau verkefni sem ég hef hér lýst. Eins og nefnt var í andsvörum áðan er sleginn ákveðinn varnagli. Þegar aðildarríki hefur tekið upp hinar sameiginlegu reglur um frjálsa för launafólks er ekki ætlast til að settar verði strangari takmarkanir síðar nema ef um röskun eða fyrirsjáanlega röskun á innlendum vinnumarkaði verði að ræða. Ég tel enga ástæðu til þess að ætla að svo verði, virðulegi forseti. Það er mest um vert núna þegar það stendur fyrir dyrum að lögfesta þetta mál á þessum degi og frjáls för launafólks verður að veruleika að við undirbúum okkur sem best þannig að sómi sé að fyrir okkur Íslendinga þannig að við getum tekið vel á móti þessu fólki og byggt hér upp blómlegt fjölmenningarlegt samfélag. Ég held að það sé markmiðið sem við hljótum að stefna að.