132. löggjafarþing — 111. fundur,  28. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[12:16]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta þótti mér um margt mjög sérkennileg ræða. Undir það tek ég með hv. þingmanni að það þarf að fara fram umræða um útlendinga og innflytjendur á Íslandi en þá umræðu á ekki að reka á forsendum ótta eða andúðar við útlendinga. Þvert á móti. Það mátti greina slíka tóna í ræðu þingmannsins og yfirlýsingar eins og um óvopnaðan her farandverkamanna. Svona tala, frú forseti, ábyrgir þingmenn ekki um þessi mál að mínu mati. Þessu svipar mjög til heimsendaspádómanna sem hér voru uppi þegar Ísland gerði EES-samninginn á sínum tíma þar sem alið var á ótta við útlendinga og það er gert í þessari umræðu að mínu mati. Þetta eru tónar eins og hafa heyrst í umræðu í Skandinavíu á vegum Framfaraflokksins norska t.d.

Að sjálfsögðu eiga þessir útlendingar að njóta sama forgangs og Íslendingar, þó það nú væri. Hvað er fengið með frestun? spyr ég nú bara. Hér er notað orð eins og stórslys, að hér sé stórslys að eiga sér stað í máli sem mér þykir mikið framfaramál. Það er nauðsynlegt að halda því til haga eftir þessa ræðu, aðeins til að draga úr því að hér var alið á hlutum eins og atvinnuleysi væri yfirvofandi, laun mundu lækka og alls konar svona upphrópanir og óttaslegin pólitík, að kannanir í Evrópusambandinu sýna að þess er ekki að vænta að stór hópur streymi hingað. Efnahagsleg uppsveifla er sem betur fer í vændum og útlit fyrir hana í þeim löndum sem hér er rætt um og að sjálfsögðu þurfa allir þessir útlendingar að leggja fram ráðningarsamning með sér þegar þeir koma hingað.

Að mínu mati er um ræða mjög viðkvæma umræðu. Það er eldfimt ástand í samfélaginu. Við sjáum það á nýjustu bréfum ofan úr Hraunbæ og Blásteini þar sem menn eru að kaupa dýrar Gallupkannanir til að kanna jarðveginn og markaðinn fyrir útlendingaandúð í íslenskri pólitík og ég harma það að menn tali svona hér.