132. löggjafarþing — 111. fundur,  28. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[12:24]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég skrifa undir nefndarálit meiri hluta hv. félagsmálanefndar með fyrirvara og sá fyrirvari stafar af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi er ég ekki alveg sáttur við það sem stendur í 2. gr. að heimilt er við vinnslu upplýsinga að samkeyra upplýsingar Vinnumálastofnunar, Útlendingastofnunar, lögreglu og skattyfirvalda í þeim tilgangi að kanna hvort atvinnurekendur sem hafa ráðið útlendinga til starfa hafi farið að lögum þessum enda sé um að ræða afmörkuð verkefni en ekki viðvarandi samkeyrslu. Að öðru leyti fer um meðferð persónuupplýsinga samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Þarna er tekið út úr lögum ákvæði um meðferð persónuupplýsinga bann við að samkeyra þessar skrár. Hér er reyndar verið að tala um atvinnuréttindi útlendinga þannig að menn geta ályktað að þetta eigi eingöngu við um útlendinga en þó er ég ekki alveg viss um að svo sé, hvort það geti ekki líka átt við um Íslendinga. Það sé hægt að keyra saman skattskrár og upplýsingar lögreglu til að fá ýmsar upplýsingar. Ef þetta á bara við ríkisborgara þessara átta ríkja þá veltir maður líka fyrir sér hvort það sé ekki mismunun að þeir skuli vera skoðaðir svona sérstaklega. Þetta er minn fyrirvari og ég hef nokkrar efasemdir um þetta atriði.

Seinna atriðið varðar það að í 3. gr. segir að í tilkynningu til Vinnumálastofnunar skuli senda ásamt með kennitölu og sitthvað fleira ráðningarsamning viðkomandi aðila sem tryggir honum laun og önnur starfskjör samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum. Þetta er svo sem í lagi en svo segir síðar:

„Vinnumálastofnun skal afhenda stéttarfélagi í viðkomandi starfsgrein á svæði því sem útlendingur skv. 1. mgr. starfar á afrit af ráðningarsamningi útlendingsins óski stéttarfélagið eftir því enda liggi fyrir grunur um brot á gildandi kjarasamningi.“

Þarna er ekki sagt frá því hver eigi að hafa þennan grun og hvort hann skuli vera rökstuddur. Menn geta alltaf haft grun um að einhver sé að brjóta kjarasamning og vilja fá að sjá viðkomandi ráðningarsamning. Þá kemur upp sú merkilega staða að maður sem ekki er í stéttarfélagi, það er engin skylda að vera í stéttarfélagi, útlendingur frá einu af þessum átta löndum, maður sem ekki er í stéttarfélagi gerir ráðningarsamning við fyrirtæki sem ekki er í Samtökum atvinnulífsins og þennan ráðningarsamning á að senda til félags einhverra manna úti í bæ sem er stéttarfélagið. Það á að fá að grandskoða þennan samning og fara ofan í hann. Þetta hef ég miklar efasemdir um.

Það eru einhverjir menn úti í bæ því það er frelsi til að stofna félög á Íslandi, líka stéttarfélög og það er engin skylda að vera í stéttarfélögum. Stéttarfélög eru ekki opinberar stofnanir þannig að þær eru ekki hluti af stjórnsýslu ríkisins og geta ekki verið það út af félagafrelsinu. Ég hef miklar efasemdir um að Vinnumálastofnun eigi ekki bara að gera þetta sjálf. Ég hefði viljað að hún kannaði ráðningarsamninginn sjálf og tæki síðan ákvörðun um það nákvæmlega eins og hún gerir í dag varðandi þetta sama fólk, að hún veitir því ekki atvinnuréttindi og landvistarleyfi nema það sé með gildan ráðningarsamning. Þetta er það sem ég hef efasemdir um.

Þetta frumvarp er angi af miklu stærra máli sem er það að í heiminum lifir einn fjórði mannkyns af einum dollara á dag eða undir 80 krónum og helmingur mannkyns lifir á tveimur dollurum á dag, þ.e. 160 kr. Við erum með miklu miklu betri lífskjör og við erum að reyna að halda okkar lífskjörum fyrir okkur og hindra fólk í að koma hingað inn af fullu frelsi. Því ef það mundi gerast að fólk gæti komið hingað hver sem vildi þá er ég nærri viss um að milljónir manna mundu streyma til Íslands og lækka launin fyrir okkur niður í ekki neitt og eyðileggja það velferðarkerfi sem við höfum byggt upp. Þess vegna er ég hlynntur þessum ráðstöfunum og þessum takmörkunum.

Ég kalla það hræsni þegar menn þykjast vera að gera vel við þetta fátæka fólk sem hingað kemur. Það er hræsni og ekkert annað. Við erum að halda því úti, við erum að passa að það undirbjóði ekki okkar háu lífskjör, okkar háu laun og okkar háu lágmarkslaun sem okkur þykja kannski mjög léleg en fyrir sumt hvert þetta fólk eru þau óskaplega há.

Þetta hefur líka komið fram í umræðu í þinginu. Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði að ef þetta yrði ekki samþykkt fyrir mánudaginn þá mundu opnast gáttir. Opnast hvaða gáttir? Gáttir fyrir fólk sem er fátækt og er að leita að vinnu og er að reyna að bæta lífskjör sín.

Nú veit ég ekki hvað atvinnuleysisbætur í Póllandi eru háar. Ég veit ekki einu sinni hvort þær eru yfirleitt til en þær eru örugglega miklu miklu lægri en þau lágmarkslaun sem eru í boði á Íslandi. Þetta er vandinn sem við stöndum frammi fyrir.

Auðvitað munu laun í þessum átta löndum hækka í kjölfar þessarar opnunar, þau munu hækka og nálgast meðallaun í Evrópusambandinu eins og hefur gerst í Portúgal og fleiri löndum sem voru með lág laun áður. Atvinnuleysi hefur minnkað í þessum löndum niður í það að verða eins og meðalatvinnuleysi í Evrópu sem er um 10% við það að fólk flytur burt því það fær betri laun annars staðar. Við það munu launin hækka í þessum löndum og við munum verða með svipuð laun um alla Evrópu eins og verið hefur, þ.e. við erum með landamæri sem hindra og vernda kjör innan Evrópu gagnvart fólki utan Evrópusambandsins.

Fatnaður okkar hv. þingmanna sem og flestra Íslendinga er unninn fyrir mjög lág laun einhvers staðar í heiminum. Það er þáttur og angi af alþjóðavæðingunni. Fólkið sem saumar þessi föt má ekki koma til Íslands og sauma þau hér. Það er það sem við erum að hindra Ég sé enga lausn á því aðra en halda því áfram og þess vegna styð ég þetta frumvarp. En ég vil ekki gera það undir því fororði að ég sé einhvern veginn í þykjustunni að passa kjör þessa fólks því það er ég ekki að gera og það gerir enginn okkar, það er bara hræsni.

Ég tel mjög mikilvægt að þeim borgurum sem koma hingað sé kennd íslenska og alveg sérstaklega íslenskir siðir og íslenskar siðareglur, hvað er rétt og hvað er rangt á Íslandi sem kann að vera öðruvísi en í þeirra heimalandi. En því miður dettur þetta tæki út þegar opnað er fyrir þetta fólk frá Evrópusambandinu af því að við höfum þetta tæki ekki. Við getum ekki gert það að skilyrði fyrir þá sem koma frá Evrópusambandinu. Hins vegar gætum við gert átak í því að bæta framboð á svona menntun og jafnvel gert hana ódýra. Ég legg til að það verði gert til að hindra að við lendum í miklum vandræðum seinna meir þegar kemur kannski önnur kynslóð þessa fólks, fólk sem ekki eru Íslendingar og ekki eru Pólverjar eða útlendingar.

Frú forseti. Það er svo annar endi að þetta frumvarp er samið einhvers staðar úti í bæ hjá ASÍ og Samtökum atvinnulífsins. Ég hef margoft gagnrýnt það og mér finnst ekki fallegt að skamma ráðherra fyrir að koma seint með þetta fram. Það eru þessir aðilar sem koma seint fram með þetta og þetta er því miður einn angi af því að Alþingi er að samþykkja lög sem eru samin einhvers staðar allt annars staðar.