132. löggjafarþing — 111. fundur,  28. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[12:46]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil gera í fáum orðum grein fyrir fyrirvara mínum við þá niðurstöðu sem varð í nefndinni. Það hefur verið gert í aðalatriðum prýðilega af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. En mig langar að bæta við örfáum orðum.

Í fyrsta lagi að í umfjöllun nefndarinnar komu fram athugasemdir við 2. gr. þessa frumvarps þar sem fjallað er um heimild til að vinna upplýsingar og samkeyra þær. Persónuvernd gerði við þetta fyrirkomulag athugasemdir. Þetta var að vísu svolítið lagfært. Ég er samt á þeirri skoðun að þarna séu menn að fara býsna nærri því að það geti varðað við þau lög sem gilda um meðferð persónuupplýsinga.

Fyrst og fremst langaði mig að fjalla um þetta mál út frá því að ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum vegna þess hvernig stjórnvöld hafa undirbúið þetta mál. Það vantar verulega mikið upp á að menn séu tilbúnir að taka við þeirri ábyrgð sem er fólgin í að opna vinnumarkaðinn með þeim hætti sem nú stendur til að gera. Það eru ekki bara stjórnvöld. Ég tel að verkalýðshreyfingin í landinu hafi ekki heldur staðið sig í þessu máli. Það er nefnilega mín skoðun að það þurfi að horfa á þetta út frá því sjónarmiði að við þurfum að varðveita kjör á Íslandi. Við þurfum ekki bara að passa upp á hvernig verður farið með þá sem koma inn í landið sem við þurfum auðvitað að gera. Það þarf að tryggja að þeir fái sambærilega og sanngjarna meðferð miðað við þá Íslendinga sem þeir eru að vinna við hliðina á. En það þarf líka að sjá til þess að glutra ekki niður áratugabaráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir kjörum á Íslandi.

Menn tala digurbarkalega um að lágmarkslaunin á Íslandi séu svo góð að þau tryggi þetta. Það er rangt. Þau er ekki svo góð að þau tryggi þetta. Það sem er enn þá verra er að lágmarkslaunin eins og þau virka í dag gagnvart innflutningi vinnuafls draga niður almenn laun í viðkomandi starfsgreinum. Það hefði þurft að gera margs konar ráðstafanir til að hamla á móti þessu. Verkalýðshreyfingin hefði þurft að endurskoða lágmarkslaun í samningum við atvinnurekendur með það í huga að þessi opnun er að verða. Ég tel að lágmarkið sé að menn fái tækifæri til þess að minnsta kosti í einum samningum sem mundi þá geta gerst ef breytingartillagan yrði samþykkt.

Síðan hafa menn líka þurft að reyna að koma á einhvers konar betri reglum og eftirliti með starfsréttindum fólks og möguleikum til að nýta fólk í verkefnum eða vinnu sem krefst starfsréttinda, fólk sem er þá að vinna á lágmarkslaunum eins og kemur til með að verða og er.

Það er nefnilega þannig, svo við tökum dæmi um byggingariðnaðinn, að það er auðvelt fyrir verktaka að flytja inn „erlenda byggingarverkamenn“ sem eru býsna gott vinnuafl. Fólk sem er jafnvel með starfsréttindi og starfsreynslu, góða starfskrafta sem eru þá boðnir fram til vinnu á íslenska vinnumarkaðnum fyrir þessi lágmarkslaun. Það verður ekki auðvelt að halda upp kjörum í starfsgrein sem býr við þessar aðstæður.

Til þess að vinna gegn þessu þurfa menn að vinna á mörgum vígstöðvum. Það gerist ekki á þessum sex mánuðum sem við erum að leggja til að þessari frjálsu för verði frestað um. En það væri kannski hægt að undirbúa sig betur en gert hefur verið með að taka sér þennan frest. Ég hefði gjarnan viljað að hann hefði verið lengri en ég tók þátt í að flytja þessa tillögu vegna þess að ég gerði mér grein fyrir að þetta væri kannski það lengsta sem við hugsanlega gætum komist með því að fá fram þessa breytingu. Þess vegna styð ég hana.

Það er að mínu viti að mörgu leyti undarlegt að menn skuli ekki hafa ákveðið að fresta gildistökunni einfaldlega vegna þess að við höfum fullan rétt til að gera það. Hvert ríki hefur algjörlega frjálsan rétt til að taka slíka ákvörðun. Hver er þá ástæðan? Ástæðan er greinilega sú að forustumenn verkalýðsfélaganna og Samtaka atvinnulífsins hafa gert um það samkomulag að þetta mál skyldi mega ganga fram þó það hafi hvergi komið fram opinberlega. En það kann varla að vera tilviljun að hæstv. ráðherra opinberaði þetta mál strax í kjölfarið á því að fyrir lágu niðurstöður um tvö mál. Annars vegar breyting á Atvinnuleysistryggingasjóðnum og hins vegar hvað varðaði vinnumarkaðsaðgerðir. Þá var ráðherrann allt í einu tilbúinn með þetta síðbúna mál um leið og þau mál lágu fyrir.

Þetta segir mér að þessir hlutir hanga saman og mér finnst óþægilegt að standa frammi fyrir því. Það er enn þá óþægilegra vegna þess að verkalýðsfélögin í landinu hafa greinilega ekki fengið tækifæri til að vinna sameiginlega að þessu máli og ná samstöðu um hvað bæri að gera. Það sést vel á þeim umsögnum sem komið hafa og þeim samtölum sem ég og fleiri hafa átt við þá sem hlut eiga að máli að það er mjög misvísandi hvað forustumenn verkalýðsfélaga og verkalýðsforustumenn á landsvísu segja um þessi mál. Það er vont mál og er ekki gott sem farteski inn í þá framtíð sem er að hefjast þann 1. maí.

Ég er fyrst og fremst að segja þetta: Við þurfum að varast að flytja fátæktina inn með þessu fyrirkomulagi sem verður tekið upp. Það er okkur öllum Íslendingum í hag að halda hér uppi auðugu samfélagi eins og menn hafa verið að stefna að í gegnum tíðina og verkalýðsfélögin hafa verið að undirbyggja. Ég óttast að aðstaðan til að viðhalda því samfélagi og bæta það og efla verði miklu erfiðari en hún hefur verið fram að þessu. Þess vegna hefðu menn þurft að taka þessi mál öðrum tökum.

Menn verða auðvitað að vinna með það sem er og næsta verkefni verkalýðshreyfingarinnar er að sjá til þess að lágmarkslaun í landinu dragi ekki niður önnur kjör og það er líka stjórnvalda að sjá til þess að reglur um meðferð á því fólki sem kemur inn í landið séu svo góðar að þær tryggi sanngjörn og sambærileg kjör fyrir það. Þetta er stórt verkefni sem menn þurfa að glíma við.

Ég held ég hafi ekki meira um málið að segja annað en að ég hvet menn eindregið til þess að taka höndum saman og berjast sameiginlega fyrir þessu. Það kann vel að vera að Samtök atvinnulífsins og sumir þar telji að það sé til mikilla hagsbóta að geta flutt inn fólk á lágmarkslaunum og með þeim hætti sé hægt að ná niður launum í landinu og halda þeim niðri. En það er að mínu viti ekki skynsamleg afstaða.

Það sem skiptir miklu máli fyrir Ísland inn í framtíðina er að hér sé samfélag sem býður fólki upp á góð kjör og þeir sem koma hingað þurfa að fá að njóta þeirra kjara. Þannig á það að vera og fyrir því eigum við að slást sameiginlega. Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri.