132. löggjafarþing — 111. fundur,  28. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[12:59]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Ársælssyni fyrir svörin. Hann talaði um pólitíska samstöðu. Já. Hvers vegna skyldi ekki vera pólitísk samstaða um að fá þennan frest?

Ég tel að ástæðan fyrir því sé nokkuð skýr og einföld. Hún er einfaldlega vegna þess að á hinu háa Alþingi eru stjórnmálaflokkar gjörsamlega að klikka í málinu, svo töluð sé hrein íslenska. Að sjálfsögðu er hæstv. félagsmálaráðherra líka að klikka í málinu því hann er að leggja fram mál á þinginu allt of seint. Það er mjög ámælisvert. Menn hafa vitað um það í tvö ár að þetta mundi gerast einmitt þennan tiltekna dag.

Það hlýtur að vera á ábyrgð Framsóknarflokksins og hæstv. félagsmálaráðherra að þetta frumvarp skuli ekki hafa komið til þingsins strax í haust. Þá hefðum við getað rætt þetta almennilega og komið með breytingartillögur og farið þá leið sem er svo augljóslega hin eina rétta sem er að notfæra okkur réttinn til að fresta gildistöku þessa ákvæðis.

Það veldur mér miklum vonbrigðum að Samfylkingin skuli ekki vilja ganga lengra en raun ber vitni í þessu máli. Það veldur mér líka miklum vonbrigðum að Vinstri grænir skuli ekki gera það. Ég er líka mjög hissa á því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn lætur flatreka í málinu án þess að gera minnstu tilraun til þess þó að reyna að beita upp í vindinn. Það veldur mér mikilli umhugsun. Því innan þess þingflokks eru þingmenn og ráðherrar sem hafa talað mjög digurbarkalega til að mynda gegn því að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Hvar eru þeir við umræðuna í dag? Hvar eru þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu í dag? Ég hlýt að lýsa eftir þeim. Hver er þeirra afstaða í þessu máli? Hinir hugrökku riddarar sem tala svo digurbarkalega á góðum stundum gegn því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Það væri fróðlegt að fá að vita það. Þeir hafa varla verið sjáanlegir hér í allan morgun.