132. löggjafarþing — 111. fundur,  28. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[13:02]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að taka að mér að svara fyrir Sjálfstæðisflokkinn í þessari umræðu, hvar þeir eru og af hverju þeir kjósa ekki að taka þátt í þeirri umræðu sem hér er. Ég ætla hins vegar að endurtaka að ég tel að því miður hafi fáir staðið sig hvað varðar undirbúning að þessu máli. Það hefði átt að gera ráð fyrir því og kann vel að vera að við höfum ekki staðið okkur heldur, t.d. í Samfylkingunni, að hafa ekki gert okkur grein fyrir því að við í stjórnarandstöðunni þyrftum að taka málið upp. Hv. þingmaður hefur heldur ekki flutt breytingartillögu enn þá svo að ég hafi séð um það hvað á að gera. Ef engar breytingartillögur verða samþykktar þá mun frjáls för opnast án þess að nokkrar reglur verði til staðar. Við stöndum bara frammi fyrir þeirri staðreynd líka. Staðan er þess vegna mjög þröng og erfið í því hvaða afstöðu við eigum að hafa til málsins núna af því að tíminn er runninn frá okkur. Þetta er þannig og allir verða að sitja uppi með að þurfa að skammast sín a.m.k. pínulítið hvað varðar meðferð þessa máls.

Ég óttast að verkalýðshreyfingin hafi ekki gætt nógu vel að sínu hvað þetta varðar. Ég tel reyndar að þar hefðu menn þurft að horfast í augu við það að taka mjög erfiða samninga við atvinnurekendasamtökin í landinu til þess að tryggja þannig lágmarkslaun að þau muni ekki draga niður kjör í landinu í náinni framtíð. Það tel ég mjög alvarlegt og það verður enn þá erfiðara að fást við þá samninga eftir að þessi frjálsa för er hafin.