132. löggjafarþing — 111. fundur,  28. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[13:16]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Samfylkingarinnar Jóhanna Sigurðardóttir hefur í ræðu sinni farið vel yfir okkar sjónarmið varðandi þessa lagasetningu Við skrifum undir nefndarálitið með fyrirvara þar sem við leggjum fram nokkrar breytingartillögur. Miðað við þær umsagnir sem við í nefndinni fengum erum við ekki tilbúin til að þessi lög taki gildi strax. Þeim hefur að vísu áður verið frestað og virðist sem sá tími hafi verið illa nýttur bæði af ríkisvaldinu og aðilum vinnumarkaðarins.

Mig langar að hnykkja á nokkrum ábendingum sem koma frá umsagnaraðilum. Það er fyrst frá Samiðn, með leyfi forseta: „Æskilegt hefði verið að samhliða aukinni opnun vinnumarkaðarins hefðu fylgt aðgerðir til að hefta aukna einstaklingsverktöku erlendra starfsmanna en hún er vaxandi vandamál. Í öðru lagi hefði þurft að lögbinda ábyrgð notendafyrirtækja í þeim tilfellum þar sem um starfsmannaleigur er að ræða.“

Hér segir jafnframt, með leyfi forseta, í umsögn frá Verkalýðsfélagi Akraness: „Telur Verkalýðsfélag Akraness íslenskan vinnumarkað alls ekki tilbúinn nú til að taka við auknu flæði launafólks. Eðlilegt sé að gildistöku reglnanna sé frestað þar til úttekt hefur verið gerð á því hvaða áhrif aukið framboð erlends launafólks frá láglaunasvæðum hefur og fyrir liggi mótaðar reglur m.a. frá aðilum vinnumarkaðarins um málefni útlendinga á íslenskum vinnumarkaði.“

Hér segir í umsögn frá BSRB, með leyfi forseta: „BSRB leggur höfuðáherslu á að réttindi og kjör verði virt við opnun vinnumarkaðarins.“

Í umsögn frá Alþjóðahúsi, með leyfi forseta: „Á vissan hátt er þó ólíku saman að jafna þar sem íslenskur atvinnumarkaður er mun smærri í sniðum en í nágrannaríkjum okkar og geta aðstæður á vinnumarkaði breyst hratt. Alþjóðahús bindur hins vegar vonir við að nýstofnað innflytjendaráð leggi fram tillögur til stjórnvalda um stefnu og aðgerðir til að tryggja aðlögun nýs vinnuafls og fyrirbyggja að upp komi vandamál.“

Verkalýðsfélag Vestfirðinga, með leyfi forseta: „Við Íslendingar höfum haft nokkur ár til að búa okkur undir staðfestingu á frjálsri för verkafólks frá þessum nýju aðildarríkjum EES en ekkert gert til að vera viðbúin nýjum viðhorfum.“

Í umsögn frá Afli, Starfsgreinafélagi Austurlands, með leyfi forseta: „Skoðun félagsmanna Afls er sú að fresta beri gildistöku um frjálsa för. Ástæðurnar eru skýrar. Í þeim mikla uppgangi sem verið hefur í atvinnulíf eystra hefur launafólki af erlendu bergi fjölgað mikið og talsvert hefur borið á því að brotið sé á fólki og kjör þess séu langt undir viðurkenndum kjörum hér.“

Frú forseti. Í ljósi aðvarana frá verkalýðsfélögum leggjum við í minni hluta félagsmálanefndar fram breytingartillögur um frestun á gildistöku laganna. Við skulum jafnframt ekki gleyma því varðandi launataxta ASÍ og Samtaka atvinnulífsins að það er stórt gap á milli lægstu launataxta og markaðslauna. Það er þessu gapi sem þarf að loka. Það þarf að skera af lægstu taxtana því þeir eru ekki í takt við raunveruleikann. Það er þetta gap sem er stórhættulegt og getur haft virkileg neikvæð áhrif á launþegana í landinu, á íslenska launþega þegar erlent vinnuafl streymir til landsins. En þetta gat er ekki bara á ábyrgð ríkisvaldsins heldur og aðila vinnumarkaðarins.