132. löggjafarþing — 111. fundur,  28. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[13:23]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er afar mikilvægt að þessi breytingartillaga verði samþykkt. Ég minni á að mörg verkalýðsfélög hafa verið að kalla eftir frekari aðlögun en hér er gert ráð fyrir. Tillagan felur í sér að framlengja tímabundið aðlögun að frjálsri för nýju aðildarfélaganna innan Evrópska efnahagssvæðisins og að aðlögunartíminn verði nýttur til að móta stefnu í málefnum innflytjenda og styrkja betur vinnumarkaðinn með lögum og reglum til að koma í veg fyrir undirboð á vinnumarkaði og að brotinn sé réttur á launafólki. Við erum að tala um grundvallarrétt launafólks í kjörum og aðbúnaði sem kostað hefur áratugabaráttu verkalýðshreyfingarinnar.

Það hefur komið fram á þessum stutta tíma sem félagsmálanefnd hefur haft til að fjalla um þetta mál að stjórnvöld hafa alls ekki nýtt þann tíma nægilega vel sem við höfum haft til ráðstöfunar til að undirbúa okkur betur fyrir frjálsa för fólks til landsins bæði með því að móta stefnu í málefnum innflytjenda og að styrkja betur vinnumarkaðinn sem er gífurlega mikil þörf á. Þess vegna legg ég áherslu á að þessi breytingartillaga verði samþykkt.