132. löggjafarþing — 111. fundur,  28. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[13:29]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Atkvæðagreiðslu um þetta frumvarp er nú að ljúka og ég vona að allir þeir sem fylgst hafa með og líka þeir sem eiga eftir að stúdera þetta mál í framtíðinni hafi tekið eftir því að það var bara einn flokkur sem sagði nei og það voru þingmenn Frjálslynda flokksins. Sjálfstæðismenn sögðu allir já og var mjög áhugavert að sjá það því þeir hafa yfirleitt gefið sig út fyrir það að vera miklir riddarar gegn hugsanlegri aðild Íslands að Evrópusambandinu en nú lagðist frekar lítið fyrir kappana. Þeir létu flatreka í þessu máli. Þeir létu flatreka beint upp á sker. Það er allt í lagi, það er þeirra vandamál, ég ætla ekkert að sýta það. En ég hygg að þegar þessari atkvæðagreiðslu lýkur verði aðeins þrír þingmenn sem munu geta gengið út úr salnum og borið höfuðið hátt og það eru þingmenn Frjálslynda flokksins.