132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Afbrigði.

[13:33]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé á sínum stað að vekja athygli á því að hér á að fara að greiða atkvæði um að veita afbrigði fyrir að taka á dagskrá þessa fundar þrjú stjórnarfrumvörp sem eru öll nýframkomin, núna þegar tveir dagar áttu að vera eftir af störfum þessa þings samkvæmt starfsáætlun. Ég sé ekki ástæðu til að leggjast gegn því að þessi mál komi á dagskrá, þau munu öll vera þannig vaxin að hæstv. ríkisstjórn hefur furðu seint uppgötvað að hún þurfi að ná fram þessum lagabreytingum fyrir vorið. Má náttúrlega velta því fyrir sér hvað menn séu að gera á þessum bæjum, í þessum ráðuneytum, að uppgötva svona hluti yfirleitt nokkrum mínútum fyrir tólf, samanber frumvarp sem hér varð að lögum fyrir 1. maí sl.

En það sem ég tel óhjákvæmilegt að fara að ræða af alvöru, frú forseti, er hvernig áframhaldið verður. Hæstv. ríkisstjórn getur náttúrlega ekki bæði sleppt og haldið í þessum efnum, komið inn með ný og ný mál og ætlast til þess að hún geti eftir sem áður þrjóskast með allt sem fyrir var á dagskrá þingsins.