132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Útskriftarvandi LSH.

[13:35]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ástæða þess að ég kveð mér hljóðs um störf þingsins er sú ársskýrsla Landspítala – háskólasjúkrahúss sem kynnt var í síðustu viku. Þar er margt athyglisvert að finna en sérstaka athygli mína vakti það sem segir í skýrslunni um útskriftarvanda í þjónustu við aldraða.

Í skýrslunni kemur fram, virðulegi forseti, að á árinu 2005 hafi að jafnaði beðið 60–80 aldraðir sjúklingar á spítalanum eftir varanlegri vistun og að 42 einstaklingar hafi látist á árinu 2005 á spítalanum meðan þeir voru að bíða eftir hjúkrunarheimili og sumir þeirra hafi beðið mjög lengi. Það þarf ekki að koma á óvart þegar þess er gætt að í úttekt sem ríkisendurskoðandi gerði á þessari þjónustu á síðasta ári kom fram að biðtími væri að meðaltali 240–270 dagar. Ástæðan fyrir þessari bið er auðvitað sú að það hefur ekki verið byggt upp hjúkrunarrými í samræmi við það sem þarf. Ég vil í þessu sambandi minna á að þegar ég var borgarstjóri í Reykjavík gerði ég samkomulag við þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson, um uppbyggingu hjúkrunarrýma í borginni. Við þetta samkomulag hefur ekki verið staðið að fullu. Það bíða núna þrjár lóðir eftir uppbyggingu og það bíða 360 milljónir á biðreikningi hjá borginni til að hægt sé að halda þessari uppbyggingu áfram.

Ástæðan kann að vera sú að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið þessu andvígur. Hann var þessu andvígur frá fyrsta degi frá því að samkomulagið var gert og þá sagði þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, að þetta væri marklaust samkomulag, það væri ekki búið að tryggja neina fjármuni til að standa við það. Sú spurning hlýtur að vakna, virðulegi forseti, hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé þarna þrándur í götu því að þingmaðurinn Jónína Bjartmarz skrifaði grein af þessu tilefni á sínum tíma fyrir fjórum árum og sagði að það væri auðvitað mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn styddi það að ráðist yrði í þetta forgangsverkefni. (Forseti hringir.) Því hlýt ég að spyrja: Strandar málið hjá Sjálfstæðisflokknum?