132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Útskriftarvandi LSH.

[13:42]
Hlusta

Pétur Bjarnason (Fl):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að rekstur spítalans skuli vera í járnum á síðasta ári. Það er líka ánægjulegt að hann skuli hafa verið rekinn á svipuðu verðlagi síðustu sex ár, með svipaða afkomu á föstu verðlagi, en það er hins vegar mikið áhyggjuefni ef þær upplýsingar sem hér hafa komið fram benda til þess að stórlega sé dregið úr þjónustu. Það er líka áhyggjuefni að flestir samningar sjúkrahússins um kaup á rekstrarvörum eru á gengistryggðum samningum og það má búast við því að afkoman fari versnandi á næsta ári.

En það sem skiptir máli er hvaða þjónustu sjúkrahúsið veitir. Mér fannst það dálítið dapurlegt sem hæstv. heilbrigðisráðherra sagði áðan að um væri að ræða kerfislægan galla. Ég velti því þá fyrir mér með þessa 42 einstaklinga sem létust meðan þeir biðu hvort dánarorsök þeirra sé þá kerfislægur galli. Ég held að þetta þurfi að athuga mjög vel og ekki síður hitt að þegar gert er samkomulag um hluti þá virðist skipta máli hvort það er gert nokkrum dögum eða nokkrum vikum fyrir kosningar eða á öðrum tíma ársins. Þetta er verulegt umhugsunarefni einmitt nú þessa dagana þegar kosningar fara í hönd og mikið er um gylliboð og yfirboð á ýmsum hlutum. Það er ágætt að velta þessu fyrir sér í ljósi þess sem hér kom fram. Eru samningar sem gerðir eru korteri fyrir kosningar eitthvað minna virði? Er verið að slá ryki í augu fólks með þeim?