132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Útskriftarvandi LSH.

[13:45]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Hér hefur hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tekið til umræðu ársskýrslu Landspítala – háskólasjúkrahúss, og þann þátt skýrslunnar sem snýr að vandamálum þeirra öldruðu einstaklinga sem enn liggja inni á þeirri stofnun og er ekki hægt að útskrifa þar sem ekki er hægt að vista þá á tilhlýðilegum stað eða útskrifa þá heim.

Ég tel, hæstv. forseti, að yfirlýsing hæstv. heilbrigðisráðherra sé mjög mikilvæg inn í þá umræðu sem núna er um öldrunarþjónustu og öldrunarmál á Íslandi. Hæstv. ráðherra lýsir því yfir að hér sé um kerfislægan vanda að ræða að hluta og það vanti fjármagn, það vantar fjármagn inn í þennan rekstur. Það hefur verið vitað um margra ára skeið að það vantar fjármagn frá ríkinu til að byggja upp þessa þjónustu. Það þarf að styrkja sveitarfélögin svo þau geti eflst og byggt upp heimaþjónustu aldraðra. Dvalarheimilin og hjúkrunarheimilin eiga í miklum rekstrarvanda í dag. Það hefur verið tekið fjármagn úr Framkvæmdasjóði aldraðra til annars en uppbyggingar hjúkrunarheimila og því verður að linna. Heilsugæslan berst í bökkum og hefur ekki getað byggt upp heimahjúkrun fyrir aldraða eins og hún þyrfti að hafa mannafla til. Eins og ég sagði áðan, hæstv. forseti, heimaþjónustan verður ekki byggð upp nema sveitarfélögin hafi til þess meira fjármagn og geti greitt fólki mannsæmandi laun svo það fáist fólk til að vinna við þessa þjónustu en svo er ekki í dag. Rekstrarvandi hjúkrunarheimilanna verður ekki leystur nema með fjárframlögum frá hinu opinbera.