132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[14:05]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það vekur auðvitað athygli að ríkisstjórnin skuli koma með frumvarp til breytinga á lögum um tekjuskatt sem lýtur að fyrirtækjum og hvernig þau geti frestað skattgreiðslum sínum af gengishagnaði síðasta árs en á sama tíma skuli ekki verið tekið á og rætt á þinginu sá mikli rekstrarvandi sem heimilin í landinu eiga við að glíma, sem eru ekki síður merkileg fyrirtæki en útflutningsfyrirtækin. Í þessu felst þó ekki, virðulegur forseti, að ég sé neitt andsnúin frumvarpinu, ég þarf að skoða það betur áður en ég tek afstöðu til þess. En mér finnst þetta vera nokkuð lýsandi um þær áherslur sem eru hjá ríkisstjórninni og hversu handahófskennd stefnumörkunin í efnahagsmálum er af hennar hálfu.

Ástæða þess að ég kem í andsvar, virðulegur forseti, er að ég ætlaði að spyrjast fyrir um hvað þetta þýddi fyrir ríkissjóð á árinu 2006, þ.e. hversu mikil tekjulækkunin yrði á því ári, þó að ég geri mér grein fyrir að í heildina tekið er ekki verið að fella niður tekjur ríkissjóðs heldur er verið að dreifa þeim á þrjú ár. Spurningin er: Hvaða áhrif er þetta talið hafa á tekjur ríkissjóðs á árinu 2006?