132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[14:33]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það frumvarp sem hér er mælt fyrir af hálfu fjármálaráðherra þarf í sjálfu sér ekki mikillar umræðu við, það er tiltölulega einfalt og felur það einfaldlega í sér að fyrirtæki sem eru með tekjufærslu gegnishagnaðar á síðasta ári geti að frádregnu gengistapi greitt skatt af þeim gengishagnaði eða dreift honum á næstu þrjú ár í stað þess að hann komi allur til skattlagningar á þessu ári.

Ég hjó reyndar eftir því, virðulegur forseti, í athugasemdum við frumvarpið og kannski að ráðherra skoði það hvort ég er eitthvað að misskilja, en þar segir í 2. mgr., með leyfi forseta:

„Í lok árs 2001 var samþykkt á Alþingi viðamikil breyting á lögum nr. 90/2003.“

Það er eitthvað sérkennilegt við það að á Alþingi árið 2001 sé samþykkt breyting á lögum frá 2003, eitthvað hefur þarna skolast til í athugasemdum við lagafrumvarpið, virðulegur forseti, en það er væntanlega bara einhver innsláttarvilla sem þarf að skoða og leiðrétta.

Eins og ég segi er þetta ekki flókið frumvarp og sjálfsagt að fara yfir það í efnahags- og viðskiptanefnd og skoða hvort á því eru einhverjir fletir sem maður kemur ekki auga á í fljótu bragði, mér sýnist að við ættum að geta afgreitt þetta nokkuð fljótt og vel. Þó að ég hafi í andsvari mínu verið að gera að umtalsefni stöðu heimilanna í landinu og þann skort á aðgerðum í þeirra þágu sem einkenna stjórnarstefnuna var ég ekki að gera það vegna þess að ég sé andsnúin þessu frumvarpi heldur vildi ég með því draga upp þá mynd sem mér finnst ansi ríkjandi varðandi núverandi ríkisstjórn en það eru harla fáar aðgerðir á hennar vegum sem gætu komið heimilunum til góða við þær aðstæður sem núna eru í efnahagslífinu.

Maður skynjar á fólki um allt land að það eru miklar áhyggjur af þeim skorti á stöðugleika í efnahagsmálum sem hefur verið á síðasta ári og sérstaklega það sem af er þessu ári með þeim miklu breytingum sem við sjáum núna í genginu og þeirri hækkandi verðbólgu sem er fyrirsjáanleg, virðulegi forseti, alveg fram á næsta ár. Þetta er því ekki bara einfalt verðbólguskot eins og menn tala stundum um, því að verðbólguskot stendur yfir eðli málsins samkvæmt mjög skamma hríð en ef marka má a.m.k. spádóma bæði greiningardeilda bankanna og Seðlabankans þá er hér um að ræða verðbólguskeið sem standa mun fram á næsta ár. Fólkið í landinu veit alveg hvað það þýðir. Það þýðir einfaldlega að það er verið að skerða kjör fólksins, verðbólgan er ekkert annað en kjaraskerðing vegna þess að laun fólks og kaupmáttur launa rýrna auðvitað sem þessu nemur.

Þar að auki þýðir verðbólgan að höfuðstóll verðtryggðra fjárskuldbindinga hækkar og eins og ég kom inn á áðan má leiða rök að því að aukist verðbólga um 1% hækki höfuðstóll verðtryggðra fjárskuldbindinga um 9 milljarða kr. Heimilin skulda jú um 1.100 milljarða og við getum gert ráð fyrir að kannski 80–90% af því séu verðtryggðar skuldir. Þá má gera ráð fyrir því að höfuðstóll fjárskuldbindinga hækki um 9 milljarða kr. Þetta sér fólk auðvitað strax og það fer að fá seðlana sína bæði frá bönkunum og frá Íbúðalánasjóði vegna skuldsetningar sem það hefur þurft að gangast undir vegna fasteignakaupa.

Ég hjó eftir því hér áðan í svari fjármálaráðherra að hann talaði um að verðmæti eignanna hefði aukist líka, og það er út af fyrir sig alveg rétt að verðmæti fasteigna hefur aukist á undanförnum árum með hækkandi fasteignaverði, og hann sagði að verðmætin hefðu aukist hraðar en verðtryggingin fær mælt og þar af leiðandi kæmi þetta ekki svo illa við heimilin í landinu, ég held ég hafi tekið þetta rétt niður eftir ráðherranum. Virðulegur forseti, það eru ekki allir sem njóta ábatans af hækkandi fasteignaverði. Flestir sem keypt hafa eignir á sl. árum hafa verið að stækka við sig eða kaupa í fyrsta sinn. Þetta fólk hefur fengið lítinn ábata út úr þeim viðskiptum, það selur eina fasteign kannski á hærra verði en það hefði gert fyrir tveimur árum en það þarf líka að kaupa aðra á hærra verði en það hefði gert fyrir tveimur árum. Unga fólkið sem er að kaupa í fyrsta sinn fær sannarlega ekki ábata út úr þessari miklu hækkun sem hér hefur orðið á fasteignaverðinu.

Við þessa hækkun á fasteignamarkaði hefur myndast aukið veðrými á eignunum og skuldsetningin hefur jafnframt aukist verulega. Það þýðir auðvitað að núna þegar verðbólgan fer af stað kemur það talsvert við heimilin í landinu. Eins og ég sagði, þegar verðbólga fer af stað hækkar höfuðstóll hinna verðtryggðu lána en gengislækkunin sem núna er, lækkun krónunnar hefur líka í för með sér að afborganir hækka verulega á gengistryggðum lánum sem mjög mörg heimili eru líka með þannig að þær miklu sveiflur sem núna eru í efnahagslífinu, bæði gengislækkunin og hin aukna verðbólga koma sannarlega við heimilin og það er því mikilvægt að ríkisstjórnin eða ráðherrar í ríkisstjórninni láti á sér finnast, þó ekki sé annað, að þeir hafi af þessu einhverjar áhyggjur og að þeir séu sér meðvitaðir um hvaða þýðingu þetta getur haft fyrir heimilin í landinu.

Eins og ég sagði í andsvari mínu áðan skil ég alveg að ríkisstjórnin skuli kasta þessu frumvarpi hér fram núna. Hún er auðvitað að reyna að bæta fyrir þann herskaða sem fyrirtækin verða fyrir vegna lélegrar hagstjórnar af hennar hálfu og við munum auðvitað reyna að afgreiða þetta mál fljótt og vel hér í þinginu þannig að fyrirtækin viti hvar þau standa varðandi þessi mál. En ástæðan fyrir þessum herskaða er eins og ég sagði, léleg hagstjórn og þær miklu sveiflur sem eru í efnahagslífinu.

Hér hefur verið komið aðeins inn á krónuna og hvort það sé við hana að sakast. Í sjálfu sér er ekkert við krónuna að sakast, það er auðvitað við hagstjórnina að sakast. Því verður auðvitað ekki á móti mælt að við erum með gjaldmiðil á litlu hagsvæði í ólgusjó alþjóðlegra fjármagnshreyfinga og það er tiltölulega einfalt að taka sér stöðu gegn krónunni og hafa áhrif á gengi hennar. Það þarf ekkert óskaplega mikið til, hún er miklu viðkvæmari en gjaldmiðlar á stærri svæðum og þar af leiðandi er viðbúið að það verði og geti orðið miklar sveiflur í efnahagslífi okkar meðan við erum með þessa mynt. En það er auðvitað efni í aðra umræðu sem ekki fer fram hér. Í því sambandi vil ég minna á þingsályktunartillögu sem við þingmenn Samfylkingarinnar höfum lagt fram um að það verði gerð úttekt á krónunni og hún borin saman við aðra gjaldmiðla og það skoðað sérstaklega hvaða þýðingu það hefði haft fyrir íslenskt efnahagslíf að vera með annan gjaldmiðil en krónuna svo sem eins og evruna. Það mál hefur ekki fengist rætt hér á þinginu og bíður vonandi betri tíma en þetta er auðvitað gríðarlega mikilvæg umræða og hún er ekki bara mikilvæg fyrir fyrirtækin, af því að það hefur verið lögð heilmikil áhersla á það, heldur líka heimilin í landinu vegna þess að við sjáum auðvitað fram á að ef við værum með evru værum við bæði að tala um lægri vexti en hér eru almennt og væntanlega lægra matarverð.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta tiltölulega einfalda frumvarp enda gefst tími til þess að fara yfir það í efnahags- og viðskiptanefnd.